138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

lánssamningar í erlendri mynt.

122. mál
[12:34]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Innlend fjármálafyrirtæki lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Það er ekki og á ekki að vera hlutverk efnahags- og viðskiptaráðherra eða starfsmanna ráðuneytisins að fara yfir skilmála lánssamninga fjármálafyrirtækja eða almennt skilmála í viðskiptum milli fyrirtækja, hvort sem það eru fjármálafyrirtæki eða almenn fyrirtæki.

Þegar þessi lán voru veitt á sínum tíma var gengið út frá því, bæði af hálfu lánveitanda og lántakanda, að þau væru lögleg og við það hefur verið miðað til þessa. Þótt ráðuneytinu sé vel kunnugt um að skoðanir kunni nú að vera skiptar um það hvort orðfæri einstakra lánssamninga kunni að einhverju leyti að vera á skjön við lagabókstafinn, þá er það og verður verkefni dómstóla að leysa úr réttarágreiningi sem slíkur ágreiningur kann að valda. Það væri í hæsta máta óeðlilegt að ráðherra færi að blanda sér í deilur sem annaðhvort eru þegar komnar inn á borð dómstóla eða virðast á leið þangað. Hér höfum við og viljum hafa þrískipt ríkisvald og framkvæmdarvaldið má ekki og getur ekki tekið fram fyrir hendur dómsvaldsins.

Ráðuneytið óskaði eftir því við Fjármálaeftirlitið að það veitti því upplýsingar um hvort það hefði kannað þessa lánssamninga sérstaklega. Í svari þess kom fram að það hefði ekki upplýsingar um hvaða fjármálafyrirtæki hefðu notað það orðalag sem fyrirspyrjandi vísar til fyrstu spurningu, þ.e. skuldari viðurkennir að skulda fjármálastofnun jafnvirði tiltekinnar krónutölu íslenskrar í tilgreindum myntum og hlutföllum. Enn fremur kom það fram í svari Fjármálaeftirlitsins að það telji að orðalag í gengisbundnum lánssamningum eða við erlend lán kunni að hafa verið mismunandi milli hinna einstöku lánveitenda og það hafi ekki aflað sérstaklega upplýsinga um þessa lánssamninga.

Þá kom fram í svari Fjármálaeftirlitsins að það hefði ekki upplýsingar um það hvort vakin hefði verið athygli á lagalegum álitaefnum sérstaklega tengdum þessum lánssamningum við uppgjör á milli nýju og gömlu bankanna. En við það er hægt að bæta að vitaskuld hefur þessi umræða verið opinber, þannig að það hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum af þeim sem komið hafa að þessu uppgjöri að einhverjir gera ágreining vegna þessara lána.