138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

launabónusar -- Icesave -- umsókn að ESB.

[13:40]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Á þeim ágæta vefmiðli feykir.is birtust nokkrar fréttir nýverið og á milli fréttanna „Sauðfjárbændur mótmæla“ og „Í dag er ekki góður dagur til að sleikja ljósastaura“ birtist frétt sem lætur ekki mikið yfir sér, en þó: „Ásmundur Einar ætlar að gera Samfylkingunni lífið leitt.“

Í fréttinni kemur fram, með leyfi forseta, að Ásmundur segi „að stoppa þurfi umsóknarferlið á næsta þrepi enda telur hann að ekki sé meiri hluti á Alþingi til að halda áfram með málið. — Við slátrum ESB-kosningunni, sagði Ásmundur og lofaði fundarmönnum því að hann muni ekki tipla í kringum Samfylkinguna í ESB-málinu heldur þvert á móti gera Samfylkingunni lífið leitt.“

Þegar þessi ummæli eru lesin saman við þær yfirlýsingar sem hæstv. ráðherrar, fjármálaráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gáfu í sumar hvað varðar ESB-ferlið allt saman kom í ljós að það væri mat þessara hæstv. ráðherra að stöðva bæri samninga við ESB ef sýnt þætti að ekki næðust að þeirra mati nægilega góðir samningar fyrir Íslendinga.

Allt þetta skiptir miklu máli og það er rétt að spyrja m.a. hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, sem situr í utanríkismálanefnd, hvort það sé mat þingmannsins að samningsstaða Íslands sé að styrkjast þessa dagana eða veikjast. Ég minni á að við sjálfstæðismenn lögðum til, úr því að ríkisstjórnin var greinilega klofin í þessu máli, að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta mál þannig að það lægi fyrir hvort vilji íslensku þjóðarinnar væri að fara í slíkt ferli, það mundi styrkja umsóknarferlið og gera mönnum ljóst í Brussel, ef þjóðin segði já, að alvara væri á bak við slíkt.

Nú er alveg greinilegt, ef menn lesa saman þessi ummæli, skoðanakannanir og ummæli hæstv. ráðherra, að lítil alvara virðist vera að baki þessu. Bæði hangir yfir hótun um að stöðva ferlið og hitt líka að sama hvað komi heim með þessum samningi muni helmingur (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar beita sér harkalega gegn þeim samningum.