138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

fjárhagsleg endurskipulagning rekstrarhæfra fyrirtækja.

[14:04]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er lykilatriði fyrir öll hagkerfi að hafa heilbrigt bankakerfi sem þjónar fyrirtækjum og heimilum. Endurreisn bankakerfisins er fremur listgrein en vísindi, menn verða að hafa tilfinningu fyrir því hvaða ákvarðanir skipta máli og í hvaða röð skal taka þær. Það er ekki til nein rétt uppskrift. Eitt er þó algjörlega víst og það er að ákvarðanir eru á ábyrgð stjórnvalda. Því meiri pólitísk sátt sem hægt er að ná um ákvarðanir, því betur gengur endurreisnin. Því lengur sem hún dregst, því meiri verður kostnaðurinn. Ég hef kosið að kalla þann kostnað aðgerðaleysiskostnað.

Mats Josefsson lýsti því yfir á dögunum að Ísland hefði ekki farið að almennum prinsippum sem varða endurreisn bankakerfisins og því vekur það alveg sérstaka athygli í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að hann skuli kalla endurreisn bankanna, sem enn er ólokið, afrek. En það er kannski bara pólitík. Laumuðu pólitískir starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi þessu inn í textann til hagsbóta fyrir ríkisstjórnina? Hver veit?

Ég vek athygli á þessu vegna þess að í vor, snemma í sumar, var unnin mikil vinna í sátt um hvernig koma mætti upp almennum prinsippum við endurskipulagningu skulda fyrirtækjanna. Það var gert með vinnu í kringum lög um svokallað eignarhaldsfélag. Til að byrja með átti þetta eignarhaldsfélag að vera einhvers konar þjóðnýtingarfélag fyrir bankana þar sem það gæti þjóðnýtt það sem kölluð voru þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki. Horfið var frá því í sátt í efnahags- og skattanefnd þar sem frumvarpið var í raun smíðað þó að upphaflegu drögin hafi komið úr fjármálaráðuneytinu. Og þar voru sett fram prinsipp sem fulltrúar allra flokka gátu sameinast um, að við endurskipulagningu skulda fyrirtækjanna ætti að hafa að leiðarljósi að tryggja þurfi jafnræði. Það á ekki að skipta máli í hvaða banka fyrirtæki eða einstaklingar eru, þeir eiga að fá svipaða eða sömu meðferð.

Í öðru lagi, vegna þess sem gerst hefur á Íslandi verður að tryggja gagnsæi í þessu ferli, það verður að vera lýðnum ljóst hvaða prinsipp er notast við og hvernig staðið er að endurskipulagningu skulda fyrirtækja.

Síðast en ekki síst þarf málsmeðferð að vera réttlát, það verða allir að vera undir sama hatt settir. Það á ekki að skipta máli hvaðan úr þjóðlífinu þeir koma, hvaða pólitísku skoðanir þeir aðhyllast o.s.frv.

Jafnframt lagði þingið með þessum lögum upp með að meginreglan ætti að vera sú að eigendur og starfsfólk gætu eignast fyrirtækin aftur eftir að fyrirtækin hefðu borgað til baka það sem ríkið hefði lagt inn eða bankarnir o.s.frv. Við sjálfstæðismenn lögðum í þessu sambandi til áskriftarfyrirkomulag, svokallaða „warrants“. Nú berast stöðugt fréttir og sögur, síminn stoppar varla, frá ýmsum fyrirtækjum sem telja að öll þessi þrjú meginprinsipp, þ.e. jafnræði, gagnsæi og réttlát málsmeðferð, hafi verið brotin á þeim. Það er eitt sem við fáum úr þeirri súpu í framtíðinni, það myndast gjá á milli fólksins í landinu. Það verður óánægja mörg ár fram í tímann, það var til að mynda reynsla Finna.

Því langar mig til að varpa því fram hvort það geti verið að bankarnir starfi ekki eftir þeim meginprinsippum sem við á Alþingi höfum samþykkt með eignarhaldsfélaginu, með Bankasýslunni og því sem sett var fram í eigendastefnu bankanna. Getur verið að sú pólitíska ábyrgð sem þarf að vera á þessu starfi (Forseti hringir.) sé ekki fyrir hendi, að bankarnir leiki lausum hala?