138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

snjóflóðavarnir í Tröllagili.

142. mál
[18:29]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir ágæta fyrirspurn og þarfa. Hann spyr hvers vegna framkvæmdunum hafi verið frestað til ársins 2013 og jafnframt hvort ráðherra hyggist endurskoða ákvörðunina.

Stuðningur ofanflóðasjóðs við framkvæmdir sveitarfélaga vegna ofanflóðavarna takmarkast eins og gefur að skilja af ráðstöfunarfé sjóðsins eins og fyrirspyrjandi hefur bent á og ráðstöfunarfé er ákveðið í fjárlögum hvers árs. Nú liggur fyrir að það er mikill samdráttur í útgjöldum ríkisins á næstu árum og því mun ofanflóðasjóður væntanlega ekki hafa fjármagn til verkefnisins í Tröllagili fyrr en á árinu 2013 að öðru óbreyttu þar sem um mjög kostnaðarsama framkvæmd er að ræða. Rétt er að halda því til haga, herra forseti, að ákveðnar væntingar voru til þess sannarlega að hafist yrði handa við verkefnið á þessu ári þar sem það yrði hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum sem kynntar voru í mars sl.

Þegar fyrir lá ákvörðun um að draga þyrfti úr því fjármagni sem ætlað hafði verið til ofanflóðavarna þótti ráðuneytinu miður að þurfa nú í haust að tilkynna bæjarstjóra Fjarðabyggðar að fyrri áætlanir um framkvæmdir við varnirnar gætu ekki gengið eftir vegna þess efnahagsvanda sem þjóðin stendur frammi fyrir og kunnur er. Möguleikar ofanflóðasjóðs til að styðja framkvæmdir sveitarfélaganna vegna ofanflóðavarna ráðast því miður af þessu ráðstöfunarfé sem ákveðið er í fjárlögum hvers árs. Endurskoðun ákvörðunar vegna einstakra framkvæmda mun ráðast af því hvort ráðstöfunarfé verður fyrir hendi. Ríkur vilji er til þess að gera það sem hægt er til að hraða framkvæmdum umfram það sem áður er sagt ef möguleikar skapast til að auka fjárheimildir ofanflóðasjóðs fyrr en nú er gert ráð fyrir.