138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

lög um greiðsluaðlögun.

[11:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Einhvern tímann hefði röggsamur forsætisráðherra gengið eftir þessum upplýsingum.

Fyrir tiltölulega fáum dögum var í gríðarlega miklu hraði gengið frá ákveðnum lögum sem áttu að auðvelda fólki að greiða niður húsnæðislán sín. Þar fullyrti hæstv. ráðherra ásamt stjórnarþingmönnum að það mundi leiða af sér að fasteignamarkaðurinn tæki við sér. Öllum er ljóst að af því verður ekki, sú forsenda stenst ekki. Í ofanálag eru menn búnir að kynna þvílíkar skattahækkanir að ljóst er að þessi litla lækkun sem verður á greiðslubyrði fólks er farin, hún er algjörlega farin.

Ég vil þess vegna spyrja hæstv. félagsmálaráðherra: Hvað nú? Nú liggur fyrir að forsendan brást, fasteignamarkaðurinn fer ekki af stað. Það liggur líka fyrir að þessi litla lækkun á greiðslubyrði er farin ef stjórnarflokkarnir ná sínu fram. Ef menn hækka skatta fólks sem því nemur og lækka launin nemur það margfalt því sem snýr að lækkun afborgana hjá þessu fólki. Fasteignamarkaðurinn er ekki farinn af stað eins og lofað var og ég spyr, virðulegi forseti: Hvað nú?