138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

lög um greiðsluaðlögun.

[11:06]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að rifja upp fyrir hæstv. ráðherra að hann var í ríkisstjórn frá 2007 til 2009. Það er nú bara þannig að kaupmáttaraukningin á síðasta áratug hefur verið mest meðal þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og að tala um að fært hafi verið frá þeim sem höfðu mest yfir á þá sem höfðu minnst er einfaldlega alrangt og það veit hæstv. ráðherra. Ef hann vill hins vegar halda ósannindum fram skal hann bara halda því áfram. Verði honum að góðu.

Hins vegar upplýsir hæstv. ráðherra að hann hafi engar áhyggjur af fasteignamarkaðnum, það sé ekki áhyggjuefni. Hann hefur ekki skoðað neitt sérstaklega hvaða áhrif þessar skattahækkanir hafa á fólk sem þarf að greiða húsnæðislán og bílalán. Þetta fólk kann hins vegar að reikna og finnur fyrir því. Stóra einstaka málið er að við höfum valkost Við sjálfstæðismenn höfum teflt honum fram. Ég hefði ætlað að ráðherra sem hefði áhyggjur af fjölskyldunum í landinu og hvernig þeim tækist að greiða lánin sín mundi skoða slíkar tillögur (Forseti hringir.) og þegar hann væri búinn að því mundi hann samþykkja þær í staðinn fyrir þessar stórkostlegu skattahækkanir sem eru (Forseti hringir.) pólitískur vilji vinstri flokkanna en ekki nauðsyn.