138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við tökum hér fyrir nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Álitið sem hér birtist er byggt á ítarlegri greinargerð sem fylgdi með frumvarpinu þegar það var lagt fyrir í þinginu og ber að hafa það í huga þegar nefndarálitið er skoðað. Það kemur fram í nefndarálitinu hverjir komu til fundar við nefndina. Þar eru fyrst taldir upp þeir aðilar sem unnu að breytingum á samningunum, þ.e. gerðu tillögur um breytingar á samningunum, sem voru embættismenn úr ráðuneytinu undir forsæti Ragnhildar Arnljótsdóttur úr utanríkisráðuneytinu. Þá komu einnig fyrir nefndina þeir lögfræðingar sem aðstoðuðu við að gera þessar tillögur að breytingum á frumvarpinu frá því í sumar, Einar Gunnarsson var þar og var nú raunar í nefndinni líka, Helgi Áss Grétarsson frá Lagastofnun Háskóla Íslands, Benedikt Bogason, Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen og fleiri sem höfðu komið að þessari vinnu.

Nefndin hélt fjóra langa fundi. Í upphafi var ákveðið í fjárlaganefnd að einbeita sér að því að skoða hvaða áhrif þetta nýja frumvarp hefði á lagasetninguna frá því í lok sumars. Á fyrsta fundinum var ítarleg kynning á öllum þeim gögnum sem höfðu verið lögð fram og samskiptum við Hollendinga og Breta, langur fundur sem fjallaði um málið í heild. Þar var lögð fram ítarleg mappa með gögnum þar sem menn gátu séð í hverju samningar voru fólgnir. Annar fundurinn var með skilanefnd og slitastjórn Landsbanka Íslands hf. og fulltrúum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, þar sem farið var yfir hugsanlegar breytingar á endurheimtum úr búi Landsbankans og með hvaða hætti þetta nýja frumvarp hefði áhrif á möguleika tryggingarsjóðsins varðandi lántökur o.s.frv.

Þriðji fundurinn var með Seðlabanka Íslands, þar sem óskað hafði verið eftir að Seðlabankinn færi yfir og endurmæti áætlanir um efnahagshorfur að fengnum nýjum forsendum og tæki þar tillit til þeirrar umfjöllunar sem hefði verið um þann þátt. Síðast var sérstakur fundur með lögfræðingum sem höfðu gert athugasemdir við eða komið með ábendingar eða tillögur varðandi málið. Á þeim fundi voru Ragnhildur Helgadóttir, prófessor í lagadeild Háskólans í Reykjavík, Stefán Már Stefánsson, prófessor í lagadeild Háskóla Íslands, Eiríkur Svavarsson, Eiríkur Helgason og Sigurður Hannesson, fulltrúar Indefence-hópsins. Þá tók fulltrúi frá breskri lögfræðiskrifstofu, Nigel Ward lögfræðingur, þátt í símafundi með öllum þessum lögfræðingum þar sem farið var yfir lagalega hlið málsins og með hvaða hætti þetta nýja frumvarp hefði áhrif á þau lög sem samþykkt hefðu verið áður.

Málið var sent til efnahags- og skattanefndar til umfjöllunar. Þaðan bárust fjögur nefndarálit. Þau voru lögð fram í nefndinni og voru skoðuð og meiri hlutinn skoðaði þau að sjálfsögðu öll og hafði til hliðsjónar við nefndarálit sitt.

Nefndarálitið fjallar í fyrsta lagi um markmiðin með þessu nýja frumvarpi. Þar stendur:

„Markmið frumvarpsins er að veita fjármálaráðherra heimild, fyrir hönd ríkissjóðs, til að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna skuldbindinga sjóðsins sem stafa af lánum hans frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum, dagsettum 5. júní 2009, og viðaukasamningum 19. október 2009. Lánin eru til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ríkisábyrgðin, sem gengur í gildi 5. júní 2016, verður nú betur í samræmi við efni lánasamninganna.“

En það var tilgangurinn með þessum endursamningum að reyna að færa ákvæði sem áður höfðu verið í fyrirvörum inn í sjálfa samningana með viðaukasamningum.

II. kaflinn í nefndarálitinu fjallar einmitt um viðaukasamningana og endurskoðunarákvæðið. Þar sem bresk og hollensk stjórnvöld voru ekki reiðubúin að fallast á fyrirvara Alþingis að öllu leyti, ákvað ríkisstjórnin að undangengnum viðræðum að gera þrjá viðaukasamninga og samrýma að mestu leyti efni lánasamninganna og þeirra fyrirvara sem koma fram í 1.–4. gr. laganna nr. 96/2009, og leggja þá fyrir Alþingi til umfjöllunar og afgreiðslu. Til að þeir taki gildi er nauðsynlegt að breyta lögum nr. 96/2009. Samningurinn er á milli íslenska tryggingarsjóðsins og tryggingarsjóðs breskra innstæðueigenda og breytir samhliða uppgjörssamningi þessara aðila frá 5. júní sl.

Samkvæmt 5. gr. frumvarpsins er endurskoðunarákvæði samninganna styrkt þar sem meta skal stöðu þjóðarbúsins í síðasta lagi 5. júní 2015 og þá einkum með tilliti til skuldastöðu og skuldaþols. Sérstaklega er tekið fram í 5. gr. í frumvarpinu að þessi ákvæði skulu skoðuð árið 2015 og farið yfir til hvers ber að taka tillit. Þar skal sérstaklega líta til gjaldeyrismála, gengisþróunar, viðskiptajafnaðar, hagvaxtar og breytinga á landsframleiðslu, svo og þróunar fólksfjölda og atvinnuþátttöku. Að undangengnu þessu mati ákveður Alþingi hvort óska skuli endurskoðunar á samningunum. Það er mat okkar að með þessu ákvæði og þeirri umfjöllun sem þetta fékk sé búið að styrkja þetta endurskoðunarákvæði frá því sem áður var.

III. kaflinn í nefndarálitinu fjallar um breytingar á lögum nr. 96/2009, en samkvæmt 1.–4. gr. laga nr. 96/2009 samþykkti Alþingi að heimila fjármálaráðherra að veita ríkisábyrgð, en með ýmsum fyrirvörum og efnahagslegum og lagalegum viðmiðum. Forsenda ríkisábyrgðarinnar var sú samkvæmt lögunum að kynna varð breskum og hollenskum stjórnvöldum fyrirvarana og þau urðu að fallast á þá, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2009. Það var sem sagt gerð klár krafa um það að leita ætti eftir samþykki þessara aðila. Síðan heldur áfram í nefndarálitinu:

Fljótlega kom í ljós að hollensk og bresk stjórnvöld voru ekki reiðubúin til að fallast á alla fyrirvara Alþingis óbreytta. Að loknum viðræðum aðila lánasamninganna varð niðurstaðan sú að gera viðaukasamninga og með þeim hætti samrýma að mestu leyti efni lánasamninganna og þeirra fyrirvara sem koma fram í 1.–4. gr. laga nr. 96/2009. Það er álit meiri hluta fjárlaganefndar að meginefni fyrirvaranna hafi náð fram að ganga og rétt sé að ljúka málinu með þessum hætti. Fallist var á kröfu viðsemjenda íslenska ríkisins um að ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins væri óskilyrt. Af framangreindu leiðir að skuldbindingin og þær reglur sem gilda í lögskiptum aðila eru nú skýrari en áður. Viðaukasamningarnir þrír eru fjármálaskjöl og hafa því sama gildi og lánasamningarnir sjálfir. Réttarstaða íslenska ríkisins ræðst því ekki eingöngu af lánasamningunum heldur einnig af þeim skjölum sem skilgreind hafa verið sem fjármálaskjöl.

Í fyrri lotu Icesave-umræðunnar átti sú umræða sér töluvert stað að vafi léki á því hver væri lagaleg staða þeirra álita sem fram kæmu í frumvarpinu en færu ekki inn í lánasamningana. Það er reynt að skerpa á því með þeim breytingum sem hér hafa verið gerðar.

IV. kafli nefndarálitsins fjallar um Brussel-viðmiðin og alþjóðlega ábyrgð, en í 1. tölul. 2. gr. laga frá nr. 96/2009 segir orðrétt: „... að lánasamningarnir verði túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið sem samþykkt voru 14. nóvember 2008 á milli Íslands, Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkja, þannig að tekið verði tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Í þessu felst m.a. að samningsaðilar verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra.“

Þessi viðmið hafa verið nefnd Brussel-viðmið og í þeim felst í fyrsta lagi að aðilar viðurkenndu þá lagalegu stöðu að tilskipun um innstæðutryggingar gilti á Íslandi með sama hætti og hún gilti í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Það var sem sagt lögð áhersla á það að menn hefðu staðið við að innleiða þetta tryggingarkerfi á sínum tíma.

Þessi viðurkenning mundi greiða fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna um fjárhagsaðstoð við Ísland, þar með talið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og í samningum við Ísland skyldi taka tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna, eins og áður sagði, sem Ísland væri í og nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gerðu Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.

Í þriðja lagi er nefnt í þessum Brussel-viðmiðum að stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins tækju áframhaldandi þátt í samningaferlinu sem færi fram í samráði við þær. Gagnrýnt var að Brussel-viðmiðin höfðu ekki verið höfð nægilega til hliðsjónar við samningagerðina. Á þessu var tekið af hálfu samningsaðila í viðaukasamningunum. Samkvæmt þeim getur íslenska ríkið takmarkað endurgreiðslur afborgana frá og með 5. júní 2016 ef hagvaxtaraukning í landinu, talið í pundum eða evrum, verður minni en gert er ráð fyrir. Íslenska ríkið getur einnig framlengt lánasamningana einhliða og þannig dregið úr heildargreiðslubyrði hvers árs. Þetta var talið tryggja möguleika íslenska ríkisins, ásamt sjö ára afborgunarleysistímabilinu, til að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.

Þessu til viðbótar kemur svo yfirlýsing fjármálaráðherra landanna þriggja sem talað er um hér síðar í álitinu.

V. kafli nefndarálitsins fjallar um lagaleg álitaefni. Í 2. gr. frumvarpsins segir orðrétt:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Með þessum hætti er lögð rík áhersla á að lagaleg skylda til að greiða innstæðutryggingar hafi ekki verið viðurkennd og ítrekað að ekki hefur náðst samkomulag um að koma ágreiningsefninu fyrir hlutlausan dómstól. Réttaráhrif 2. gr. eru m.a. þau að fjármálaráðherra skal efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna og eftir atvikum Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins um hvaða áhrif ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurður Evrópudómstólsins hafa ef málið kemur þangað. Þessir aðilar eru tilgreindir þar sem þeir komu að gerð Brussel-viðmiðanna haustið 2008.

Í VI. kafla nefndarálitsins er fjallað um gengisáhættu. Myntsamsetning eigna Landsbanka Íslands hf. er með þeim hætti að verulegur hluti eigna er í breskum pundum, evrum og bandaríkjadölum, en einungis lítill hluti í íslenskum krónum. Kröfur á hendur bankanum í erlendri mynt eru færðar í íslenskar krónur eftir skráðu sölugengi Seðlabanka Íslands 22. apríl 2009 í samræmi við 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991, sbr. ákvæði til bráðabirgða III í lögum nr. 44/2009. Sú fjárhæð breytist ekki frá þeim degi undir meðferð búsins og er því grundvöllur úthlutunar úr því til viðkomandi kröfuhafa, óháð því hvenær slík úthlutun fer fram. Slitastjórn bankans hefur ekki lagt fram kröfuskrá skv. 119. gr. gjaldþrotalaga og endanleg afstaða liggur ekki fyrir, sbr. ákvæði 120. gr. sömu laga. Gjaldeyrisáhætta bankans er fólgin í því að eignir hans eru að langmestu leyti í erlendri mynt en kröfur á hendur bankanum hafa verið umreiknaðar í íslenskar krónur. Ef gengi íslensku krónunnar veikist gagnvart erlendri mynt mun eignahliðin hækka í íslenskum krónum en skuldahliðin standa óbreytt og heimtur aukast mælt í krónum. Frá sjónarhóli kröfuhafa sem á kröfu í erlendri mynt þýðir þetta að heimtur hans verða lægri fjárhæð reiknað yfir í þá mynt sem kröfunni var lýst í. Hið gagnstæða mun gerast ef krónan styrkist á móti erlendri mynt.

VII. kafli í nefndarálitinu fjallar um yfirlýsingu fjármálaráðherra landanna þriggja. Þar segir að þrátt fyrir að sameiginleg yfirlýsing fjármálaráðherra Íslands, Hollands og Bretlands hafi ekki lagalegt gildi hafi hún á hinn bóginn mikið pólitískt vægi og sýni afstöðu aðila til ýmissa álitaefna á þeim tíma sem ritað var undir viðaukasamningana og frumvarpið var lagt fram á Alþingi um breytingar á lögum nr. 96/2009. Mikilvægustu efnisatriði yfirlýsingarinnar eru eftirfarandi:

Um leið og íslenska ríkið gengst undir ábyrgð vegna skuldbindinga tryggingarsjóðsins gagnvart breska og hollenska ríkinu er tekið fram að það viðurkenni ekki að því hafi borið lagaskylda til að veita þá ábyrgð.

Aðilar eru tilbúnir til að ræða málefni lánasamninganna á næstu árum ef aðstæður krefjast þess og vinna saman að því að útvega aðstoð við að endurheimta sem mest af eignum Landsbankans. Lagalega og pólitískt skiptir hér mestu máli að viðsemjendur íslenska ríkisins viðurkenna berum orðum að íslenska ríkið gangist undir ábyrgðina að öllu leyti án þess að hafa viðurkennt að því hafi borið skylda til þess. Fram kemur vilji til að ræða málefni lánasamninganna, þ.e. heitið er samstarfi í anda góðrar trúar um að leiða öll álitaefni þeim tengd farsællega til lykta. Fram kemur stuðningur aðila við endurreisn Íslands í samræmi við efnahagsáætlun landsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þar með þau Brussel-viðmið sem áður voru nefnd.

Í VIII. kafla er umfjöllun um úthlutun eigna úr búi Landsbankans. Með samningunum frá 5. júní 2009 var í sérstökum uppgjörssamningi milli tryggingarsjóðs breskra innstæðueigenda og íslenska tryggingarsjóðsins tekið fram að ef einn aðili fengi meira úthlutað til sín en næmi hlutfallslegum rétti hans til innstæðunnar í heild samkvæmt ákvörðun slitastjórnar, af hvaða ástæðum sem það væri, þá skyldu aðilar eigi að síður skipta fjármunum hlutfallslega jafnt. Mælt var fyrir um svipaða skipan í hollenska lánasamningnum. Þetta fyrirkomulag átti að halda í lögskiptum aðila, sama hvernig úthlutað væri og óháð niðurstöðu dómstóla um þetta atriði.

Það er mikilvægt að halda þessu atriði til haga. Þannig voru samningarnir upphaflega.

Ástæðu þessarar skipunar má m.a. rekja til þess að fyrir undirritun lánasamninganna í júní höfðu viðsemjendur tryggingarsjóðsins íslenska og íslenska ríkisins umráð krafna hvers innstæðueiganda og höfðu í hendi sér hvernig framsali þeirra yrði háttað. Fyrir undirritun samninganna var það einnig sameiginlegur skilningur aðila að tryggingarsjóðurinn nyti jafnræðis við útgreiðslu krafna úr búi Landsbankans.

Í almennum athugasemdum við fyrirliggjandi lagafrumvarp er greint nánar hvernig tekið er á fyrirvara um röðun forgangskrafna. Til að hann verði virkur og breyti réttarstöðu aðila, hugsanlega íslenska ríkinu og tryggingarsjóðnum til hagsbóta, þarf eftirfarandi að gerast:

Í fyrsta lagi: Íslenskir dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að íslenski tryggingarsjóðurinn njóti við úthlutun eigna úr búi Landsbankans sérstaks hagræðis við að hafa með höndum þann hluta kröfu hverrar innstæðu sem nemur allt að fyrstu 20.887 evrum og sú niðurstaða er ekki í ósamræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Talið er líklegt að íslenskir dómstólar vísi þessu ágreiningsefni til EFTA-dómstólsins, sbr. kafla 3.6 í athugasemdum við frumvarpið. Þetta mat byggist m.a. á álitsgerðum innlendra og erlendra sérfræðinga um að EES-réttur skipti máli við úrlausnaratriði málsins.

Taki EFTA-dómstóllinn ekki efnislega á málinu, t.d. vísi því frá, mundi hagfelld niðurstaða íslenskra dómstóla breyta samningunum. Þetta má segja með öðrum orðum að þetta svokallaða Ragnars Halls-ákvæði er þannig að ef EFTA-dómstóllinn fjallar ekki um málið, þá gildir einfaldlega niðurstaða íslensku dómstólanna.

Taki dómstóllinn efnislega afstöðu og álitið er íslenska tryggingarsjóðnum óhagfellt, en niðurstaða íslenskra dómstóla hagfellt, breytast ákvæði lánasamninganna ekki varðandi þetta atriði og það sama gerist ef þessu yrði öfugt farið.

Rétt er að hafa í huga að valdið til að taka efnislega ákvörðun um þetta atriði fyrir dómi er hjá íslenskum dómstólum og geta þeir lögum samkvæmt komist að annarri niðurstöðu en ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Þó má benda á að niðurstaða íslenskra dómstóla er að jafnaði í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Því má segja að komist EFTA-dómstóllinn að efnislegri niðurstöðu mun sú niðurstaða líklegast ráða því hvort breyting verði á samningunum. Það haggar því ekki að bæði EFTA-dómstóllinn og íslenskir dómstólar hafa óbreytta stöðu að lögum, þ.e. þeir eru sjálfstæðir í störfum sínum. Ákvæði viðaukasamninganna tiltaka eingöngu að þessir dómstólar þurfa að vera með ráðgefandi áliti annars vegar og dómi hins vegar að taka tiltekna afstöðu til ágreiningsefnisins svo að samningsákvæðin um skiptingu eigna Landsbankans breytist.

IX. kafli nefndarálitsins fjallar síðan um efnahagslegu fyrirvarana og skuldastöðuna. Í tveimur tilfellum víkja samningarnir sem hér er fjallað um og nú liggja fyrir frá ákvæðum um greiðsluhámark sem Alþingi samþykkti í ágúst sl. Í fyrsta lagi er ákvæði um að alltaf skuli greiða áfallna vexti. Í öðru lagi gerir samningurinn ráð fyrir að haldið verði áfram að greiða af lánunum miðað við regluna um greiðsluhámark þar til lánin eru að fullu greidd. Að beiðni fjárlaganefndar Alþingis lagði Seðlabanki Íslands fram minnisblað, dagsett 14. nóvember sl., þar sem m.a. er lagt mat á greiðsluferilinn miðað við 50%, 75% og 90% endurheimtur úr búi Landsbanka Íslands hf. Þar kemur í ljós að aðeins við 50% eða minni endurheimtur og forsendur í síðustu þjóðhagsspá bankans, þar sem talað er um hægari styrkingu krónunnar og minni aukningu hagvaxtar, aðeins við þessar aðstæður hafa viðbótarákvæðin áhrif á greiðsluferilinn. Sömuleiðis mætti búast við, miðað við sömu forsendur, að lánin yrðu ekki greidd upp að fullu fyrr en árið 2026 í stað 2024, þ.e. að seinkun yrði á að greiða upp að fullu um tvö ár ef niðurstaðan væri sú að hér yrðu innan við 50% endurheimtur og aðrar forsendur bankans gengju eftir. Verði endurheimtur 75% eða meiri, eins og spáð hefur verið, hefur ákvæðið um að greiða að lágmarki vexti engin áhrif á efnahagslegu fyrirvarana í samningunum og munu vaxtagreiðslurnar ávallt rúmast innan þeirra.

Eins og áður hefur komið fram tók efnahags- og skattanefnd Alþingis efnahagslegan þátt samninganna fyrir, samanber fylgiskjöl með áliti þessu. Það er mat meiri hluta fjárlaganefndar að fengnu áliti Seðlabankans og efnahags- og skattanefndar að ekki sé hætta á greiðsluþroti þjóðarbúsins en greiðslugeta þess ráðist af viðskiptajöfnuði og endurfjármögnun erlendra skulda.

Ástæða er til að rifja upp að m.a. í hagfræðiálitinu fyrr í sumar kom fram að ein af meginforsendum þess að við slyppum í gegnum öll þessi áföll væri að auðvelt yrði að endurfjármagna skuldir ríkisins. Tekið er tekið undir það sjónarmið og þar skipta auðvitað alþjóðleg samskipti og góð samskipti við lánastofnanir erlendis mjög miklu máli.

X. kafli nefndarálitsins tekur á 6. og 7. gr., vegna þess að í fjölmiðlum og í athugasemdum hafði komið fram að þær greinar sem fjölluðu eingöngu um eftirlitið með Icesave-málinu féllu út, hvernig skyldi fara með það inni í þinginu og eftirlitshlutverk fjárlaganefndar. Þess vegna er þessi kafli hér svohljóðandi:

„Sá misskilningur hefur komið fram að ákvæði 6. og 7. gr. gildandi laga um eftirlit Alþingis og skilmála ríkisábyrgðar gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta falli brott í nýju frumvarpi. Svo er ekki. Öll ákvæðin sem varða Ísland sérstaklega og tengjast ekki beint samningunum verða áfram í gildi þrátt fyrir breytingar sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.“

Auðvitað kemur fram í lagatextanum að aðeins sé verið að breyta öðrum greinum, en frumvarpið er breyting á lögunum frá því í sumar.

Niðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar er: Í ljósi þess sem að framan segir leggur meiri hluti fjárlaganefndar til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir þetta er skrifað 16. nóvember 2009 af þeim sem hér stendur, Guðbjarti Hannessyni, formanni fjárlaganefndar, að auki skrifa Björn Valur Gíslason, Oddný G. Harðardóttir, Þuríður Backman, Sigmundur Ernir Rúnarsson og Ólafur Þór Gunnarsson undir álitið.