138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:31]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Undanfarin ár, undanfarin missiri og sumir mundu segja áratugi, hefur farið fram mikil umræða um það að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Nú stendur til að þetta verði að veruleika og þess vegna er þarft að við tökum málið hér aðeins upp til umræðu um það hvernig við sjáum fyrir okkur þessa yfirfærslu.

Þjónusta við fólk með fötlun er eitt erfiðasta, flóknasta og viðkvæmasta verkefnið í velferðarkerfinu og því mikilvægt að vel verði haldið á spilunum, flutningurinn verði vel skipulagður og unninn af raunsæi og þekkingu.

Virðulegi forseti. Þann 13. mars sl. var undirrituð viljayfirlýsing ríkisstjórnar og sveitarfélaganna um þennan flutning og að hann skuli fara fram árið 2011. Helstu markmið þess að flytja þjónustuna eru samkvæmt viljayfirlýsingunni þau, að mínum skilningi, að bæta þjónustu og gera hana einstaklingsmiðaðri, að verkaskiptingin verði skýrari, stuðla að samþættingu við nærþjónustu við íbúa sveitarfélaga, styrkja sveitarstjórnarstigið og einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Allt eru þetta sjónarmið sem ég get tekið undir.

Ég er þeirrar skoðunar að þjónusta við fatlaða eigi vel heima hjá sveitarfélögunum þar sem hún er þess eðlis að hún er hluti af nærsamfélaginu. Með því að fela sveitarfélögunum þetta verkefni verða gæði þjónustunnar mikil og hagkvæmni þjónustunnar í raun hámörkuð. Sveitarfélögin hafa sýnt það með störfum sínum að þau eru vel í stakk búin til að taka að sér krefjandi verkefni og sinna nærþjónustu af ábyrgð og fagmennsku.

Það er vissulega nauðsynlegt að nægilegir fjármunir fylgi svo hægt sé að sinna verkefninu vel samkvæmt þjónustuþörf hvers samfélags. Nokkur sveitarfélög hafa tekið að sér þetta verkefni sem tilraunaverkefni og gert um það sérstaka þjónustusamninga við ríkið. Ég veit ekki betur en að þau verkefni hafi gengið mjög vel og að það sanni að verkefnið fái meiri athygli þegar því er sinnt af nærsamfélaginu.

Mig langar að vita, hæstv. forseti, og beini þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, hvort könnun hafi farið fram á því hvort þjónustustigið í tilraunasveitarfélögunum sé það sama og þar sem ríkið sinnir verkefninu. Jafnframt langar mig að vita hvort könnun á þessu sama atriði hafi farið fram meðal þjónustuþega og þá fýsir mig að vita hvort það liggi fyrir hvort sambærilegt fjármagn fari í þennan málaflokk í þeim sveitarfélögum sem gerður hefur verið þjónustusamningur við og þar sem ríkið sinnir þessum verkefnum.

Þá er jafnframt mjög mikilvægt að ræða ákveðin tilvik þar sem um sérstakar stofnanir er að ræða, eins og t.d. í tilfelli Sólheima í Grímsnesi, hvernig eigi að fara með þá yfirfærslu í slíkum tilfellum og athuga hjá hæstv. ráðherra hvort einhver umræða hafi farið fram um það.

Þá er nauðsynlegt að ræða starfsmannamálin í kringum þetta verkefni, hvort búið sé að skoða hvort t.d. launakjör og starfskjör séu sambærileg við það sem starfsmenn ríkisins og sveitarfélaga hafa eða hvort fyrirséð sé gríðarleg breyting á þeim háttum.

Þá hefur farið fram nokkur umræða um það hvernig verkefnið verði flutt og hvort ákveðin stærð þjónustusvæða sem undir liggja verði gerð að skilyrði af hálfu ríkisins. Heyrst hafa tölur um að það verði u.þ.b. 7.000 íbúar á bak við hvert þjónustusvæði og mig langar að vita hvort hæstv. félagsmálaráðherra hefur lagt fram einhverja stefnumörkun í þessu efni.

Frú forseti. Ég hef nokkrar áhyggjur. Þrátt fyrir að ég sé mjög bjartsýn á það að sveitarfélögin geti sinnt þessu vel hef ég talsverðar áhyggjur af því hvernig kostnaðarmat mun fara fram og hvernig því verður háttað við yfirfærsluna. Grunnþjónustan og grunnstofnanir þurfa að vera til staðar þegar verkefni eru flutt yfir og svo er einfaldlega ekki í öllum byggðarlögum. Það verður vissulega ekki hægt að bjóða upp á alla þjónustu á hverjum einasta bæ á landinu, því miður, en á sumum starfssvæðum eru einfaldlega mjög fá úrræði í boði og litla þjónustu að hafa þannig að íbúar t.d. í Rangárvallasýslu og Skaftafellssýslum sækja þjónustu sína að miklu leyti á Selfoss.

Það er mismunandi hversu hátt hlutfall svæðin fá í dag. Þannig hafa t.d. Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum ályktað um að það sé óeðlilegt að framlög til Reykjaness á hvern íbúa séu 24% lægri en samkvæmt landsmeðaltali. Er þar ekki verið að brjóta á lögbundnum réttindum fatlaðra? Þess vegna langar mig að vita hvort ítarleg umræða hafi farið fram um það hvernig þetta kostnaðarmat mun fara fram og hvort þess verði gætt að grunnþjónustan, t.d. búsetuúrræði, sé til staðar þar sem á þarf að halda. Í Rangárvallasýslu er það t.d. svo að sumir einstaklingar sem vilja ekki flytja að heiman (Forseti hringir.) velja að búa á öldrunarstofnunum ef þeir verða fatlaðir.