138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

flutningur málefna fatlaðra til sveitarfélaga.

[13:54]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir að hefja umræðu um þetta mikilvæga mál. Eins og fram hefur komið í máli annarra þingmanna held ég að bæði þingmenn og sveitarfélög séu almennt orðin sammála um að færa verkefni um málefni fatlaðra frá ríki yfir til sveitarfélaga. Það er líka mjög langur tími síðan þetta verkefni hófst og menn hafa nefnt tölur aftur til ársins 1992. Upp úr því hófust einmitt slík tilraunaverkefni hjá sveitarfélögum. Hér hafa verið nefnd góð dæmi um slíkt eins og Akureyri og einnig má nefna Norðurland vestra og Hornafjörð. Þar er hins vegar einungis um 2.200 manna samfélag að ræða sem hefur gert þetta vel þannig að hugmyndin sem hefur verið í þessu um þjónustustærð upp á 7–8 þús. er ekki einhlít þótt það sé sjálfsagt mál að hafa hana sem viðmiðun í þessu sambandi.

Hæstv. ráðherra minntist aðeins á sóknaráætlanir ríkisstjórnarinnar og mér finnst mjög áhugavert að skoða hvernig þær samræmast hugmyndum heimamanna á hverjum stað. Þær mega ekki ganga í berhögg við hugmyndir sem menn hafa verið að vinna. Ég held að eitt mikilsverðasta atriðið í því af hverju þetta er ekki löngu komið í heilu lagi yfir til sveitarfélaganna sé sá trúnaðarbrestur og skortur á trausti sem hefur ríkt á milli ríkisvaldsins og sveitarfélagsstigsins, þessara tveggja opinberu stiga. Þar þarf auðvitað að bæta úr og vonandi eru menn á þeirri leið. Ef menn trúa því og treysta að báðir aðilar komi fram af heiðarleika í samskiptum hvor við annan, ekki síst þegar er sýslað er með fjármuni, þora menn að fara í verkefni vegna þess að þeir vita að þeir verða bakkaðir upp (Forseti hringir.) með eðlilega fjármuni til að sinna þessum málaflokki eins vel og hann sannarlega þarf.