138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi áðan að þau ákvæði í lögum sem samþykkt voru í ágúst hafi verið mjög skýr, þ.e. að Íslendingar ætluðu að hætta að borga á ákveðnum degi árið 2024. Það var einfaldlega ekki þannig, hv. þingmaður, að Íslendingar hefðu gefið út þá yfirlýsingu að þeir ætluðu sér hreinlega að hætta að borga ef eftirstöðvar yrðu af láninu þá. Þingmaðurinn ætti að lesa frumvarpið mun betur en hann hefur greinilega gert.

Þar kemur fram og stendur skýrum stöfum að Íslendingar skyldu hefja viðræður við viðsemjendur sína ef útlit væri fyrir að eftirstöðvar yrðu af láninu árið 2024 til að leysa það mál. Það er ekki svo einfalt, hv. þingmaður, að Íslendingar í þessu tilfelli geti gefið út einfaldar yfirlýsingar um hvenær þeim þóknist að borga og hvenær þeir ætli að hætta að borga. Þannig er það einfaldlega ekki. (TÞH: Við gerðum það nú samt.)