138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:01]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem ég sagði áðan, enda var hv. þm. Höskuldur Þórhallsson ekki að beina neinum spurningum til mín að neinu leyti. Hann nefndi reyndar tvö atriði sem ég var búinn að nefna áðan. Annars vegar ákvæði um 2024 þar sem hann las prýðisvel hér upp úr lögunum frá því í sumar, en það kemur líka fram að menn skuli hefja viðræður um framhald málsins, menn eiga að hefja viðræður um framhald þess máls og það er vegna þeirrar óvissu og þess umtals sem varð hér á landi, m.a. í þessum sölum, mismunandi skoðanir á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um hvað þá gerðist, sem þess er krafist að úr þessu sé skorið og það er þá bara best að hafa það þannig, alveg frá upphafi. Ég var líka þeirrar skoðunar, hv. þingmaður, að eignir Íslendinga hafi verið tryggðar í sumar í fyrri samningum, en ég benti á það áðan að það er þá ítrekað og niður neglt þannig að það fari ekki fram hjá nokkrum manni að það hafi verið gert.