138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson skuli taka svona vel í þessa hugmynd og við ættum kannski að fara aðeins lengra með hana eftir að nóttin er liðin. Jafnframt langar mig til að halda áfram á þessum nótum og spyrja þingmanninn vegna þess að það er ljóst að haldið hefur verið mjög óhönduglega á þessu máli af hálfu Íslendinga. Það var tekið úr hinum stjórnmálalega farvegi, hin svokölluðu Brussel-viðmið voru lögð til hliðar, þarna voru embættismenn sem margir hverjir höfðu enga reynslu af alþjóðasamningum af þessu tagi, aðrir höfðu litla reynslu af slíku og við fengum alveg hræðilega útkomu í sumar í fyrstu útgáfu Icesave-samninganna. Sem betur fer, fyrir tilstilli nokkurra vaskra þingmanna Vinstri grænna, tókst að snúa þessu máli nokkuð okkur Íslendingum í vil og þá urðu til hinir frægu fyrirvarar, bæði lagalegu og efnahagslegu fyrirvarar, og svona til að umorða þetta yfir í spurningu: Væri kannski tilefni til þess að við mundum fara fram á að það yrði athugað hvernig staðið var að því af Íslands hálfu að setja saman samninganefnd, skipa samninganefnd og semja við Hollendinga og Breta?