138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér þykir þingmaðurinn upplýsa okkur hér um merkilegan hlut, að hæstv. utanríkisráðherra hafi viðurkennt þetta fyrir þingmanninum, ég veit ekki til þess að nokkur hafi viðurkennt þetta með berum orðum þannig að mér þykir þetta fréttnæmt.

Ég minnist þess að við 1. umr. þessa máls spurði samflokks- eða samhreyfingarmaður þingmannsins, hv. þm. Birgitta Jónsdóttir, hæstv. fjármálaráðherra hvort það mætti breyta einhverju. Ég man að hæstv. fjármálaráðherra fór í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut og sagði svo eitthvað á þá leið að frumvarpið væri komið í skýran og endanlegan búning, sem fékk mann til að halda að ekki mætti mikið út af bregða.

Þá er kannski spurningin: Hvað telur þingmaðurinn að við getum áorkað miklu ef við leggjumst saman á eitt? Heldur þingmaðurinn að við getum náð aftur (Forseti hringir.) þeim árangri að ná hér þverpólitískri samstöðu?