138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að frú forseti beiti sér fyrir því að hæstv. forsætisráðherra verði viðstödd þessa umræðu þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sem hefur haft sig mjög mikið í frammi í á annað ár í þessu máli mun halda ræðu sína hér. Ég minni líka á að hæstv. fjármálaráðherra gagnrýndi það mjög hér að stjórnarandstæðingur skyldi geta komið hér upp í óundirbúnum fyrirspurnum til að svara spurningum er tengdust Icesave-málinu. Þá velti ég fyrir mér hvort hæstv. ráðherra muni ekki fara að koma sér á mælendaskrá, koma sér framarlega í röðina til að eiga í einhverjum skoðanaskiptum við okkur, og líka hæstvirtur forsætisráðherra, sem er mikilvægt.

Margt nýtt hefur komið fram í þessu máli og við þurfum að fá svör við þeim spurningum sem við höfum komið fram með í þessari umræðu. Það gengur ekki að ríkisstjórnin sé eins og einhver höfuðlaus her í umræðunni.