138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, allt er þetta rétt sem hv. þingmaður bendir hér á og allt náttúrlega með stökustu ólíkindum. Hver gerir samning sem er þess eðlis að jafnvel þó að dómur falli sem sýni fram á að brotið hafi verið á viðkomandi eigi hann samt engan rétt? Þetta er algjörlega óskiljanlegt og raunar þarf þar til menn sem hafa mjög undarlega sýn á veruleikann. Kannski er fyrrnefndur fjölfræðingur einn af þeim. Þau dæmi sem hv. þingmaður nefndi um greiningar hans gefa það kannski til kynna, til að mynda þetta að við gætum borgað af þessum skuldum þó að það verði enginn hagvöxtur í landinu. Það er bara mjög einfalt að sýna fram á það með dæmum hér hverjar gjaldeyristekjur landsins eru að það er ekki með nokkru móti hægt að skrapa saman í eina greiðslu, verði sú raunin. (Forseti hringir.) Þessar staðhæfingar eru því fráleitar en þær þurfa að vera fráleitar til að hægt sé að réttlæta þennan samning.