138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:07]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á mjög marga hluti sem vekja okkur til umhugsunar hér í þinginu og mig langar til að koma inn á eitt mál sem er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og hlutur hans í þessu hræðilega ferli og þeim hræðilegu samningum sem virðist eiga að pína okkur til að gera.

Nú hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eins og kom fram í ræðu þingmannsins, lýst því yfir að það þurfi ekki að leysa Icesave til að fá lánin. Noregur hefur líka lýst því yfir að þeirra lán sé óháð Icesave og hafi verið til útgreiðslu frá 28. október. Er einhver pressa í dag? Mig langar til að spyrja hv. þingmann að því: Hvaða pressa er mögulega í dag á því að þvinga þetta mál í gegn í ósætti við þjóðina og þingið? Er einhver pressa?