138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég lít svo á að við kjörnir þingmenn séum þingmenn allrar þjóðarinnar í hvaða kjördæmi sem við erum. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir biður mig að koma upp og fagna með sér. Mér finnst þetta svolítið undarleg beiðni en hún er kannski skiljanleg miðað við afstöðu þingmannsins til málsins.

Formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu sinni á laugardaginn á flokksstjórnarfundi sem haldinn var í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í Reykjanesbæ að hún væri sannfærð um að öllum hindrunum yrði rutt úr vegi. Það er hennar skoðun og það er bein vísun í orðalag stöðugleikasáttmálans sem gerður var í sumar. (Gripið fram í.) Það liggur allt fyrir sem við vitum um það mál, nú er kæruferli Suðvesturlínu í gangi eins og þingmaðurinn veit. Umhverfismat liggur fyrir, væntanlega fjármögnunin líka. Það „eina“ sem reyndar liggur ekki alveg fyrir er hvernig afla eigi orku til stóra álversins en væntanlega finna menn út úr því þannig að í raun var verið að lýsa því sem allir vita sem hafa fylgst með þessu máli.

Ég get alveg lýst þeirri persónulegu skoðun minni að með orðalaginu „að ryðja úr vegi“, sem er orðalag stöðugleikasáttmálans, fannst mér svolítið djúpt í árinni tekið af því að væntanlega ætlum við að fylgja landslögum við þessa framkvæmd eins og allar aðrar.