138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[11:15]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Varðandi atkvæðagreiðsluna og kvöldfund eða fund inn í nóttina tel ég mikilvægt að við heimilum þinginu að funda í kvöld og fram á nótt. Ég tel að allir þeir sem gáfu kost á sér til framboðs í vor hafi átt að gera sér grein fyrir því að fram undan væri óhófleg vinna, mikið álag og það þýddi ekki núna við þessar aðstæður, þ.e. það hrun sem við stöndum frammi fyrir og þau verkefni sem við stöndum frammi fyrir, að tala um fjölskylduvæna vinnustaði á þessum tíma. (Gripið fram í.) Það er þannig og verkefnin bíða. Þau eru mikil og við verðum að gefa þinginu rúm og tækifæri til að vinna fram á kvöldið. (Gripið fram í.)

Hvað varðar Icesave tel ég mikilvægt að klára 2. umr., koma því máli síðan til nefndar og fara yfir þau mál sem hv. þingmenn hafa óskað eftir. Það þarf að skoða ýmsa þætti þess máls sem hafa komið núna fram og það á að gera milli 2. og 3. umr. Gefið því þann tíma sem þarf á réttum stað og í réttu rúmi.