138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hér talar hæstv. utanríkisráðherra og gumar sig svo af því í stól sínum, heyri ég, að því að vera samkvæmur sjálfum sér. (Gripið fram í.) Hann talar um það að hann virði þann rétt manna á þinginu til að halda ræður, langar ræður, og koma skoðunum sínum á framfæri. Þess vegna frábið ég mér þann málflutning hæstv. ráðherra að halda því fram að ég standi í málþófi. Ég hef haldið eina ræðu. Eina ræðu í þessu máli í 40 mínútur. Það er nú allt málþófið af minni hálfu, hæstv. ráðherra. Ég krefst þess að hann skýri þau orð sín (Gripið fram í.) vegna þess að nú er ég í ræðustól að tala um fundarstjórn forseta og hef óskað ítrekað eftir því í dag að ég fái það upplýst hvenær hæstv. forseti ætlar sér að ljúka fundi í dag eða í kvöld þar sem ég er að fara á fund í iðnaðarnefnd í fyrramálið kl. 8.30. Ég fékk gögnin um málið núna síðdegis og ég á eftir að undirbúa mig undir þann fund, lesa gögnin og funda með fólki til að undirbúa það mál. Ég krefst þess, frú forseti, að við verðum upplýst um það hversu lengi þessi fundur muni standa. (Gripið fram í.)