138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

gengisáhætta innstæðutryggingarsjóðs.

[10:34]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er mál sem hefur komið upp alltaf annað slagið í einni eða annarri mynd og menn hafa áhyggjur af þessari gengisáhættu. Það er út af fyrir sig vel skiljanlegt en við höfum farið yfir það margsinnis hérna að kröfum á tryggingarsjóðinn er lýst í evrum og pundum og því mun sú krafa hækka og lækka í fullu samræmi við skuldbindingar sjóðsins gagnvart Bretum og Hollendingum. Kröfur tryggingarsjóðsins hafa verið settar fram í krónum og fjárhagur þeirra bundinn við gengi íslensku krónunnar eins og við þekkjum frá ákveðnum tíma, en þegar kröfunum er lýst í pundum og evrum og eru því áfram bundnar gengi þessara mynta þá skiptir það auðvitað máli. En ég hef sagt hér að ég tel að það sé rétt að farið sé vel yfir þessa gengisáhættu og að sjóðurinn geri heildstætt mat á þessari gengisáhættu sem hvíla mun á sjóðnum og eftir atvikum bregðist þá við vegna þess að hann getur með ýmsum hætti lágmarkað þessa áhættu.