138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður hefur reynslu af því að vera formaður nefndar, þar á meðal fjárlaganefndar. Hefði honum einhvern tímann dottið í hug að vera ekki viðstaddur umræðu þar sem verið var að ræða um nefndarálit sem hann er framsögumaður fyrir?

Í gegnum tíðina — ég er nú búinn að vera nokkur ár á þingi — hefur stjórnarandstaðan ævinlega og oft krafist þess að bæði framsögumenn og sérstaklega líka ráðherrar hérna áður fyrr, væru viðstaddir umræður. Mér finnst eðlilegt að ráðherra sé viðstaddur 1. umr. stjórnarfrumvarps af því að hann er að mæla fyrir frumvarpinu. Mér hefur hins vegar alltaf þótt óeðlilegt að gerð sé krafa um að ráðherra sé viðstaddur 2. umr. eða 3. þar sem málið er þá í höndum þingsins. En þetta var samt sem áður gert og margir þeirra sem núna sitja í ríkisstjórn þekkja þetta mjög vel, því að þeir beittu því sjálfir.

Nú er staðan sú að hvorki ráðherrar né framsögumenn nefnda eru staddir í þingsal og ég get alveg tekið undir reiði hv. þingmanns yfir því, en ég vil spyrja hann hvort hann hafi nokkurn tímann látið sér detta í hug sem framsögumaður máls að vera ekki viðstaddur umræðuna.