138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota aðeins hluta af andsvari mínu til að benda á það að frá því klukkan eitt er búið að vera von á formanni fjárlaganefndar til að hlusta á umræðuna, hann er ekki kominn enn og vek ég athygli á því. Ég vil beina því til hæstv. forseta að hún beiti sér verulega fyrir því að formaður fjárlaganefndar verði fundinn og hann komi hingað. Þetta er að mínu viti óvirðing við þingið, óvirðing við málið og ekki til sóma.

Ég tek undir það með hv. þm. Pétri H. Blöndal að það er svo augljóst hvað felst á bak við þessa hótun og hvað felst á bak við það sem heldur ríkisstjórninni gangandi, þ.e. ætlar þú — er sagt við þingmennina og við samstarfsflokkinn — að verða til þess að sprengja fyrstu vinstri stjórnina? Þetta er sögulegt tækifæri sem þessir flokkar hafa til að starfa af heilindum fyrir þjóðina, koma málum sínum á framfæri, en þeir ákveða hins vegar að eyða tímanum og fjármunum þjóðarinnar í aðallega tvö risamál; það er annars vegar þessi ólukkans umsókn um aðild að Evrópusambandinu og hins vegar Icesave. Hvort tveggja held ég að muni leggja klafa á þjóðina til langs tíma, sérstaklega Icesave-samningurinn.

Það kom fram í ræðu eða í tilkynningu frá Hreyfingunni hvað skatttekjur margra Íslendinga muni þurfa til að borga, ég held bara vextina af þessum Icesave-reikningum. Tæplega 80 þúsund, ef ég man rétt, sjötíu og eitthvað þúsund Íslendinga. Nærri helmingur af þeim sem greiða til samfélagsins. Það er alveg ótrúlegt.