138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin.

Mig langar aðeins að halda áfram með þetta í sambandi við efnahagslegu fyrirvarana vegna þess að í sumar kom einn þekktasti samningamaður í heimi, Lee Buchheit, sem er reyndur í að semja fyrir lönd í þeirri stöðu sem við erum. Hann varaði okkur einmitt eindregið við. Hann sagði: Þið skuluð ekki semja um hvernig þið ætlið að standa skil á þessu fyrr en þið vitið hver upphæðin er og ekki fyrr en búið er að gera upp þrotabúið. Þið skuluð segja, við skulum gangast við því að borga þetta, en hvernig það verður gert verður að ákveðast þegar menn vita hvert umfang skuldarinnar er. Það er annaðhvort að gera það með þeim hætti, eins og hann sagði, eða þá að setja mjög sterka efnahagslega fyrirvara þannig að við getum reist okkur aftur upp úr rústunum. Hann sagði að mjög mörg ríki hafi fallið í sömu gryfju og lent í því að auðlindirnar hafi verið teknar af þeim því að þegar menn lenda í slíku er ekkert annað eftir.

Ég vil hins vegar taka undir það sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði einmitt í andsvari við hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson. Ég held að fólk sé í rauninni hætt að skilja þessar tölur, það er nefnilega hættan við þetta, það er hætt að skilja þær. Talað er um tugi og hundruð milljarða og það er enginn að spá í hvað þetta er í rauninni, hvað þetta eru miklar upphæðir.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um það, þegar samninganefndin tók ákvörðun um að semja við Breta og Hollendinga í samningunum, að greiða vexti frá 1. janúar 2009 sem okkur bar engin lagaleg skylda til fyrr en núna í haust. Þetta er upphæðir upp á 35 milljarða sem við erum að borga þarna aukalega sem okkur bar ekki lagaleg skylda til að gera. Og eins það að við skulum vera að borga Bretum og Hollendingum 3,5 milljarða fyrir það að borga þetta, bara einungis fyrir að borga þetta út, eins konar umsýslukostnað. Hvað finnst hv. þingmanni um þau vinnubrögð? Og tekur þó hv. þingmaður undir það að mjög margir geri sér ekki orðið grein fyrir tölunum í dag, þetta sé orðið svo stórt og mikið?