138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef í sjálfu sér fullan skilning á því að hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sé engin sérstök áhugamanneskja um vinstri stjórnir, ég veit hins vegar að hún er áhugamanneskja um stjórnarskrána. Nýverið skrifaði Sigurður Líndal, einn okkar fremsti lögfræðingur er varðar stjórnarskrána, athyglisverða grein þar sem hann velti því upp hvort verið gæti að Alþingi væri að fara á svig við stjórnarskrá lýðveldisins. Fyrir okkur þingmenn, sem höfum undirritað eiðstaf þess efnis að gera slíkt ekki, er mjög alvarlegt að hafa slíka óvissu hangandi yfir sér.

Við óskuðum eftir því, frú forseti, að gert yrði hlé á 2. umr. um þetta stóra mál til að hægt yrði að fara yfir stjórnarskrána. Mig langar að spyrja hv. þingmann um það hvort hún deili þessum áhyggjum með stjórnarskrána, hvort það sé ekki gríðarlega brýnt að fá í rauninni nú þegar botn í þessar vangaveltur Sigurðar Líndals, því að það er í sjálfu sér ótækt að eyða tíma þingsins í að ræða mál sem hugsanlega brýtur stjórnarskrá í stað þess að gera örstutt hlé meðan farið er yfir málið og menn geti svo haldið áfram umræðunni í trausti þess að þeir séu ekki á villigötum eða á rangri leið. Mig langar að spyrja um það hvort hún deili þessum (Forseti hringir.) áhyggjum af málinu.