138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég las í morgun mjög athyglisverðan og góðan pistil eftir hv. þm. Ólöfu Nordal í Pressunni sem ber yfirskriftina „Dubaí og Icesave“. Með leyfi forseta, segir þingmaðurinn í pistli sínum:

„Ein allra mesta hætta í Icesave-málinu eru vaxtagreiðslurnar. Eftir að efnahagslegu fyrirvararnir sem Alþingi samþykkti í sumar voru teknir úr sambandi, er ljóst að við munum alltaf þurfa að borga vextina upp í topp.“

Svo heldur þingmaðurinn áfram og bendir á eftirfarandi:

„Jafnframt er ljóst, að krafa tryggingarsjóðsins í þrotabú Landsbankans er þannig vaxin, að höfuðstóllinn verður forgangskrafa en vextirnir eftirstæð krafa. Tjónið er því mikið.

Þegar er ljóst, að Bretar og Hollendingar hagnast verulega á viðskiptum sínum við okkur vegna þess að þeir fjármagna sig á 1,25% lægri vöxtum en þeir lána okkur á. Þessi vaxtamunur hleypur á hundruðum milljarða þegar allt er talið. Með þessu háttalagi staðfesta Bretar og Hollendingar að hér er ekki um að ræða samskipti milli tveggja“ — raunar þriggja — „sjálfstæðra ríkja heldur hreinan viðskiptasamning sem þeim finnst eðlilegt að stórgræða á.“

Ég átti mjög áhugavert samtal við stjórnarliða í matsalnum áðan og við vorum einmitt að velta þessu fyrir okkur, þessu vali að hafa farið þá leið að gera þetta að lánasamningi frekar en pólitískum samningi eða ákveðinni niðurstöðu á milli þessara ríkja. Það væri áhugavert að heyra mat þingmannsins Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur á því ef það hefði verið keyrt áfram, af því að þetta var ekki lánasamningur heldur ákveðin pólitísk niðurstaða á milli þessara þriggja ríkja, hvort niðurstaðan hefði orðið önnur og hvort það hafi verið rétt að láta tryggingarsjóðinn taka lánið í staðinn fyrir að ríkið tæki það á sig.