138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:38]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég sé enga brýna hættu. Ég sé aftur á móti meiri hættu í því ef við förum ekki yfir þetta. Ég er ekki að ýkja þegar ég finn fyrir ugg og vá alls staðar. Ég er með verulegar áhyggjur, einlægar áhyggjur og ég mundi ekki standa í þessu nema ég hefði verulegar áhyggjur af því sem hefur komið fram um hvernig málunum er háttað með þennan nýja samning sem okkur er gert að samþykkja blindandi.

Ég held að það væri mjög skynsamlegt, ég held að það væri bara hrikalega snjallt hjá stjórnarliðum og formanni fjárlaganefndar að vinna þetta mjög vel í nefndinni. Það er það sem við erum að kalla eftir, að þetta verði unnið í nefndinni þannig að girt verði fyrir það sem við höfum verið að benda á og ekki bara við heldur fólk í samfélaginu, t.d. Sigurður Líndal og fleiri. Ég trúi því ekki, ég hreinlega trúi því ekki að það ágæta fólk sem stjórnar nefndunum og stýrir þessu ferli ætli virkilega, út af einhverri þvermóðsku eða út af einhverjum fyrirmælum að ofan, ekki að vinna vinnuna sína. Við erum hérna til að vinna fyrir þjóðina, að tryggja þjóðarhag. Það eru hrein og klár — svo ég taki nú stór orð — svik við þjóðina ef við tryggjum ekki að unnið sé vel úr öllu. Margar nýjar upplýsingar hafa komið, það eru margir nýir váboðar, og ég hreinlega treysti því að hv. formenn, varaformenn, fjármálaráðherra og forsætisráðherra sýni sóma sinn í því að gefa okkur tækifæri til að vinna úr þessu þannig að það sé alveg örugglega engin hætta. Við erum ekki hérna að gamni okkar, það er alveg á hreinu.