138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:57]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég held það væri hyggilegt af virðulegum forseta að boða fund þingflokksformanna hið fyrsta svo að hægt verði að koma skikki á þinghaldið svo að menn þurfi ekki sífellt að vera að spyrja sömu spurninganna og fá sjaldan við þeim svör og enn fremur til að koma í veg fyrir þá skringilegu fundarstjórn, sem hæstv. forseti viðhafði hér um hádegisbilið — það var reyndar ekki sami forseti sem nú situr á forsetastóli, en það hlýtur að vera makalaus undantekning að hæstv. forseti skuli ákveða að fella niður matarhlé þegar engin fyrirmæli eru til um það hversu lengi fundur eigi að standa.

Það hefur ekki enn fengist fram hjá hæstv. forseta hverjar fyrirætlanir hans eru um framhald dagsins. Ég verð að hvetja hæstv. forseta til þess að fundur formanna verði haldinn hið allra fyrsta til að hægt verði að koma þinginu út úr þeim (Forseti hringir.) furðulegheitum sem nú eru í gangi.