138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:35]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér er spurt af hverju ríkisstjórnin fari þessa leið. Gæti það verið út af áhuga Samfylkingarinnar á ESB-aðild o.s.frv.? Ég held að það sé ekki þannig. Ég held að ESB hafi ekkert með málið að gera. Ég heyri að það eru mjög margir sem vilja tengja þetta saman, sérstaklega ESB-andstæðingar, þeir sem fóru fremstir í flokki gegn umsókninni að ESB, þeir eru alltaf með þetta fremst á sinni tungu. Ég held að það hafi ekkert með það að gera. Það er nú skrýtið að sú sem hér stendur tali og reyni að útskýra stefnu ríkisstjórnarinnar. En miðað við þau rök sem stjórnarflokkarnir halda fram þá telja þeir að ekki verði komist lengra með þetta mál, því ferli sé lokið, ekki sé hægt að breyta því og nú dugi ekkert annað en að bíta í skjaldarrendur og klára það. (Gripið fram í.) Og stjórnarsinnarnir telja að mikil hætta sé á vandræðagangi hér ef það verður ekki gert.

Ég er ekki sammála þessu og var heldur ekki sammála þessu í sumar. Þetta var líka sagt í sumar. Þá greiddi sú er hér stendur atkvæði gegn niðurstöðunni og vildi setjast að samningaborðinu aftur. Ég deili því ekki þeirri skoðun. En það er nú svo að menn eru ekki alltaf sammála um hlutina, en eins og ég skil stjórnarflokkana þá telja þeir að ekki sé hægt að ná meiru út úr málinu, ekki sé hægt að ná því lengra, og einhvern tímann verði því að ljúka.

Það verður kannski rannsóknarefni síðar af hverju þingið og stjórnvöld, stjórn og stjórnarandstaða, gátu ekki staðið meira saman gagnvart alþjóðasamfélaginu, aðallega Bretum og Hollendingum, sem eru aðalviðsemjendur okkar í þessu. Af hverju var ekki hægt að standa betur saman gagnvart þeim? Það væri mjög merkilegt að reyna að finna út úr því af því það hefði verið miklu betra hefðum við staðið saman, komið beittar fram og farið meira á staðina til að kynna málstað okkar. Hann var aðeins að komast í gegn í sumar en núna er öll umræða dauð úti af því að (Forseti hringir.) Bretar og Hollendingar eru búnir að borga sínu fólki og samningurinn er það langt kominn hér innan dyra.