138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:55]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú er ég ekki jafnhokinn af þingreynslu og sá hv. þingmaður sem stóð hér á undan mér og taldi þetta varla vera einsdæmi um að efast væri um heiðarleika þingmanna eða þá heilbrigði þeirra. Mér fannst spurningar hv. þm. Péturs H. Blöndals vera mjög skýrar áðan. Hann spurði hvaða mat hv. þm. Margrét Tryggvadóttir legði á líðan annarra þingmanna annars vegar og hvort hér hefðu verið ástunduð heiðarleg vinnubrögð. En hvað um það, ég ætla ekki að eyða meiri tíma í það.

Ég vil beina því til hæstv. forseta að þegar gert verður matarhlé á eftir verði leitað eftir því að formenn stjórnarandstöðuflokkanna sem ekki hafa sést í dag, hv. þm. Bjarni Benediktsson og hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, verði kallaðir til fundar. Þeir hv. þingmenn hafa sjálfir haldið því fram, rétt eins og allt þinglið þeirra flokka, að hér sé um eitt alvarlegasta mál Íslandssögunnar að ræða. Ég krefst þess að þeir verði kallaðir til fundar eða í það minnsta að það verði upplýst hvar þeir halda til. (Gripið fram í.)