138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er að sjálfsögðu mjög jákvætt að forseti óski heimildar til að hafa þingfund lengur en hefðbundið er ef ástæða er talin til þess eftir fund forseta með formönnum þingflokka á eftir. Það mátti greina það í máli formanns þingflokks sjálfstæðismanna að ekki væri búið að boða til slíks fundar en hann verður haldinn núna í hádeginu og þá munum við að sjálfsögðu ræða þetta mál. Það er alveg sjálfsagt að afgreiða slíka heimild í upphafi þingfundar. Svo beitir forseti, eftir samráð við þingflokksformenn, þeirri heimild eins og efni standa til. Við vitum að það er áríðandi að þessi umræða gangi fram og stjórnarandstaða og stjórnarmeirihluti hafi allan þann tíma sem þau þurfa til að ræða þetta mikilvæga mál. Hér bíður gríðarlegur fjöldi mikilvægra mála sem þarf að leysa úr í desember og við vitum að það gengur alla jafnan mikið á á Alþingi Íslendinga í desember þegar verið er að ljúka mörgum stórum málum. Forseti þingsins hefur haldið mjög vel utan um þinghaldið miðað við aðstæður og átökin sem verið hafa á síðustu dögum. Þess vegna fagna ég því að virðulegur forseti óski þessarar heimildar og við ræðum það á eftir.