138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

upphæð persónuafsláttar.

[10:44]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra er nýbúinn að staðfesta að það sem hann skrifaði í Fréttablaðsgrein í morgun er rangt. Það eru bara talnaleikur og blekkingar. Það er rangt að hækkun skattleysismarka muni leiða til lækkunar tekjuskatts hjá einstaklingum með mánaðartekjur undir 270 þús. kr. Það er rangt. Gildandi lög í landinu hefðu tryggt þeim sem eru með 270 þús. kr. eða minna lægri skatta en ríkisstjórnin ætlar að bjóða upp á. Þetta eru talnaleikir og blekkingar, ekkert annað. Hæstv. fjármálaráðherra getur leyft sér að tala um skattaframkvæmd undanfarinna ára en þessi ríkisstjórn ber á borð rangar upplýsingar um áhrif þeirra skattbreytinga sem hún kynnir nú til sögunnar og það er alvarlegur hlutur. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru.

Hvort við Íslendingar höfum efni á því við þær aðstæður sem nú eru uppi í þjóðfélaginu að verðtryggja persónuafsláttinn er alveg sérstök umræða. En við skulum ekki bera rangar upplýsingar á borð fyrir þingheim eða almenning í landinu og sérstaklega ekki láglaunafólk (Forseti hringir.) um að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin grípur til núna leiði til minni skattbyrði en óbreytt kerfi.