138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

breytingar á fæðingarorlofi.

[10:55]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Nú um helgina og í morgun fengum við fréttir af því að ríkisstjórnin hyggist skerða fæðingarorlof fólks eða breyta reglum eða lögum þannig að einn af þessum sameiginlegu mánuðum færist aftur um þrjú ár. Þetta þýðir að mæður geta bara verið í fæðingarorlofi í fimm mánuði.

Nú er það svo að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin mælir með því að börn séu eingöngu höfð á brjósti og neyti engrar annarrar fæðu eða drykkjar, ekki einu sinni vatns, fyrstu sex mánuði ævi sinnar. Undir þetta taka landlæknir og Lýðheilsustöð og Miðstöð heilsuverndar barna leggur líka mikla áherslu á að brjóstamjólk sé besta næringin fyrir ungbörn enda er talið að móðurmjólk sem helsta næring barna fyrsta árið vegi miklu þyngra en öll önnur næring.

Hér ætlar sem sagt hæstv. ríkisstjórnin að skerða rétt ungbarna til næringar. Það er margsannað að móðurmjólk er langfullkomnasta fæða ungbarna sem völ er á og ekkert getur komið í staðinn fyrir þann heilsufarslega ávinning sem brjóstagjöf hefur, ekki einu sinni einn mánuður með foreldrunum eftir þrjú ár. Nú vil ég fá að vita: Hefur hæstv. heilbrigðisráðherra hugsað sér að taka tillit til faglegra sjónarmiða sem stuðla að heilbrigði bæði barna og fullorðinna og leiðrétta þetta bull?