138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

Icesave.

[11:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það hefur verið gert í viðræðuferlinu. Fjármálaráðherra Hollands hefur að vísu ekki verið í samninganefndarhópnum en það hafa hans nánustu samstarfsmenn verið. Þannig hefur þetta væntanlega komið til skila þar og ég hef tekið þetta (Gripið fram í.) upp á fundum með honum. (Gripið fram í: Hvernig embættismennirnir stálu jólunum.) Ég hef að sjálfsögðu tekið þetta upp á fundum með honum. Það kemur kannski að því að ég tali í þessu Icesave-máli þegar linnulausum umræðum um fundarstjórn forseta, matarvenjur þingmanna og andsvörum við sig sjálfa er lokið. (Gripið fram í: Málefnaleg …) Ég skal þá fara aðeins yfir það (Gripið fram í.) hvað í húfi er í þessu máli, (Gripið fram í.) ef maður fær smáfrið, ef maður hefur eina mínútu til að reyna að svara.

Veruleikinn er sá að það segir í greinargerð með frumvarpinu að íslensk stjórnvöld stefni að því að reyna að ljúka afgreiðslu þess í nóvembermánuði. Það var að því stefnt að gera það. Það eru riftunarákvæði í samningunum ef það ekki gengur eftir, sem við vonum að sjálfsögðu að verði ekki gripið til. Greiðsluskylda innlánstryggingarsjóðs varð endanlega veitt 27. október sl. Lánshæfismatsfyrirtækin (Forseti hringir.) bíða eftir að þessu máli ljúki. Mjög margt fleira tengist því með nákvæmlega sama hætti og hér hefur ótal sinnum áður komið fram. Og þó að þingmenn reyni að búa til einhvern sýndarveruleika utan um umræðu sína, (Forseti hringir.) einhvern gerviheim, er alvöruheimur þar fyrir utan.