138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:26]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Ég hef spurningu til hv. þingmanns. Ég hef lengi verið hugsi vegna þess að ég skil einfaldlega ekki hvað stjórnarflokkunum gengur til með þessu og af hverju þeim finnst réttlætanlegt að við tökum þessar byrðar á okkur. Við leggjum gjörvalla þjóðina undir valtara Breta og Hollendinga og þessar byrðar sem við getum svo augljóslega ekki staðið undir. Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi einhverjar skýringar á þessu. Ég veit að hún er ekki í ríkisstjórn, en ég spyr hvort þetta hafi líka verið henni hugleikið. Eins langar mig að spyrja hana hvort hún telji að hæstv. ríkisstjórn hafi haft einhverja trú á verkefninu, hvort hún hafi haft þá trú að hægt væri að lenda þessu máli með ásættanlegum hætti fyrir íslenska þjóð þannig að hér verði lífvænlegt og gott að búa í framtíðinni og næstu áratugina, og hvort hún telji að hæstv. ríkisstjórn hafi haft trú á þeim fyrirvörum sem við gerðum að lögum í sumar. Eins væri áhugavert að fá að heyra hvort hv. þingmaður viti þess einhver dæmi að löggjöf sé borin undir aðrar þjóðir til samþykktar.