138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil blanda mér inn í þessa umræðu og hvetja hæstv. forseta til að setja á langa fundi og tíða til að þingmönnum úr bæði stjórn og stjórnarandstöðu gefist kostur á að ræða þetta mál í samfellu og út í hörgul og að sjálfsögðu þangað til þessari umræðu er lokið.

Hitt er að það er algjörlega fráleitt þegar einstaka þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og öðrum flokkum eru að reyna að skikka aðra þingmenn á mælendaskrá, óska eftir því, væntanlega fyrir þeirra hönd, að þeim forspurðum, að þeir séu settir á mælendaskrá. Ég bið hv. þingmenn að hugsa um sjálfa sig og sína eigin flokksmenn, í staðinn fyrir að reyna að ráðskast með aðra, að þeim óspurðum, úr öðrum flokkum. Þá varðar að sjálfsögðu ekkert um það hvenær þeir kjósa að tala og eiga ekki að óska eftir því að mælendaskrá sé rudd þeirra vegna.

Ég ítreka það við hæstv. forseta (Forseti hringir.) að halda þessum fundi sem allra lengst áfram og ná dýpt og samfellu í þessa löngu og ágætu umræðu.