138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni segja að ég tel að hæstv. forseta farnist ákaflega vel við stjórn þessara funda. Auðvitað er það þannig, eins og gengur, að þegar hiti hleypur í leikinn hallast menn jafnvel að því að skeyta skapi sínu á þeim ágætu forsetum sem sitja hér fyrir aftan ræðumenn. Ég bið menn um að stilla sig um það jafnvel þó það sjóði og bulli á mönnum í erfiðum málum eins og þessu.

Ég vil einnig þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir margauðsýnda tillitssemi við mig og umhyggju en segi honum það og hæstv. forseta að ég þarf enga hjálp til að komast á mælendaskrá. Ég hef lýst afstöðu minni til málsins eins og það liggur fyrir núna mjög ítarlega, flutt hér ræðu og skýrt afstöðu mína til hvers einasta ákvæðis sem er í lögunum. Ég hef líka tekið þátt í umræðum eftir því sem þurft hefur. Ég hef svarað mönnum. Ég hef verið hérna. Það er ekkert meira sem ég hef að segja nema ef ske kynni að fram kæmi alvöruræða frá hv. þingmönnum (Forseti hringir.) eins og gerðist hér í dag og það stóð ekki á mínum svörum við henni. En hv. þingmenn hljóta að vita (Forseti hringir.) að ef þeir vilja tala verða þeir að vera salnum eitthvað fram eftir nóttu. Þetta er af umhyggju fyrir stjórnarandstöðunni sem hefur lýst mikilli þörf fyrir að fá að tala um málið.