138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:12]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Eins og aðrir þakka ég hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir hans ágætu ræðu. Það var eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í því að mér fannst hann ekki koma alveg nógu mikið inn á það og það varðar stjórnarskrána sem er töluvert búið að fjalla um. Mig langar, með leyfi herra forseta, að lesa örstutt upp úr grein sem þrír lögfræðingar skrifuðu:

„Í stuttu máli má halda því fram með fullum rökum að verið sé að skerða fullveldi ríkisins umfram það sem stjórnarskrá heimilar.“

Hv. þingmaður hefur komið inn á þetta í ræðum sínum. Telur hv. þingmaður að við þurfum að gefa þessu atriði meiri gaum en áður hefur verið gert í ljósi þess að við höfum sem þingmenn skrifað hér undir ákveðinn eiðstaf sem okkur ber að virða og hlýða?

Ég tek undir orð þingmannsins, kannski gerum við of lítið af því að horfa til jákvæðra merkja í samfélagi okkar, það er ekki allt neikvætt, en ég hef vissulega áhyggjur af því að það mál sem við ræðum hér, þetta svokallaða Icesave-mál, muni stækka eða breikka neikvæðu hliðina. Það er, herra forseti, ein af ástæðum þess að við erum enn að ræða þetta mál og sumir þingmenn eiga meira að segja eftir að halda sína fyrstu ræðu þannig að það er ósköp eðlilegt að við tölum um þetta aðeins áfram.

Mig langar að heyra skoðun hv. þingmanns á stjórnarskráratriðinu því að ég hef mjög miklar áhyggjur af því og ég tek undir þau orð hans að hér séu ýmis jákvæð merki.