138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:22]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær spurningar sem til mín var beint. Ég hef ekki upplýsingar um hversu lengi stjórnarliðar töluðu í vatnalagamálinu, en þar fór fram mikil og löng umræða. Ég tek undir með hv. þingmanni að það væri vel til fundið að forseti mundi taka saman þær upplýsingar. Ég hef reyndar undir höndum upplýsingar um hversu lengi var talað um EES-samninginn. Það voru 110 klukkustundir. (Gripið fram í.) Það var talað í 93 klukkustundir um fjölmiðlafrumvarpið. Af því tilefni vil ég taka fram að ég hef ekki lokið við að segja allt sem ég ætla mér að segja í þessari umræðu. Ég mun eins og Pétur Blöndal tilkynna meiri hlutanum ef við kjósum að hefja málþóf vegna þess að þetta er ekki málþóf, þetta er eðlileg og málefnaleg umræða og mér finnst hún skila árangri.

Örstutt varðandi eignaupptöku. Samkvæmt gjaldþrotalögum eiga kröfuhafar að fá upplýsingar um stöðuna á eignum sem þeir gera kröfu um að fá úthlutað. Þannig hljóða gjaldþrotalögin. Aftur á móti stangast þessi regla á við lög um bankaleynd, þ.e. lög um fjármálafyrirtæki. Hvað gerðist? Fjármálaeftirlitið var látið skera úr um og það komst að þeirri niðurstöðu að það væri sem sagt ekki þess virði að við fengjum þessar upplýsingar þannig að við eigum, eins og ég hef sagt hér, að samþykkja Icesave-frumvarpið með bundið (Forseti hringir.) fyrir augu.