138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er áhyggjuefni að ekki skuli vera fjallað um þetta stóra og í rauninni merkilega mál sem er stjórnarskrárhluti þessa samnings af meiri alvöru og festu en gert hefur verið. Það er rétt hjá hv. þingmanni að á þetta hefur verið bent töluvert oft og töluvert mikið af mörgum þingmönnum enda eru hér margir löglærðir þingmenn. Meira að segja höfum við sem ekki erum með slíkt próf upp á vasann haft ákveðnar efasemdir um hvort það megi samþykkja slíka hluti. Það er því full ástæða til að athugasemdir þessara færustu lögmanna okkar verði teknar mjög alvarlega og ég skora á frú forseta að beita sér fyrir því.