138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:11]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir skörulega ræðu. Ég heyrði að hann náði ekki að ljúka máli sínu þar sem hann var í miðjum klíðum að fjalla um tiltekna blaðagrein sem þrír lögmenn birtu á dögunum og ég hlakka til að heyra þá ræðu hv. þingmanns.

Mig langar engu að síður aðeins að fara inn á þessar vangaveltur um stjórnarskrána, þá sérstaklega varðandi fullveldið. Nú fögnum við Íslendingar fullveldi hinn 1. desember, nýbúin að halda hátíð af þeim sökum. Við skulum aldrei láta fullveldið frá okkur, en á mbl.is kemur í dag fram í viðtali við Sigurð Líndal lagaprófessor að hann telji Icesave-frumvarpið skerða fullveldi Íslands. Hann segir að það sé eðli dómsvalds að dómur sé eðlileg niðurstaða máls og vísar í 2. gr. frumvarpsins. Í henni stendur um lagalega stöðu, með leyfi forseta:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Síðan segir:

„Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, og sú úrlausn er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins, að á íslenska ríkinu hafi ekki hvílt skylda af þeim toga sem nefnd er í 1. mgr., eða að á öðru aðildarríki EES-samningsins hafi ekki hvílt slík skylda í sambærilegu máli, skal fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna …“

Frú forseti. Út af þessu ákvæði hefur prófessorinn þær áhyggjur af fullveldinu að þarna séum við í rauninni að afsala okkur dómsvaldinu eða hluta af því. Það segir í fréttinni að Sigurður telji að ráðgefandi álit eins og fram kemur í 2. gr. frumvarps (Forseti hringir.) til ríkisábyrgðar standist ekki stjórnarskrána. Mig langar að fá álit hv. þingmanns á þessum efasemdum prófessorsins.