138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:12]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ekki hvarflar að mér að óska eftir leiðbeiningum um rakstur frá hæstv. forseta en það væri ágætt að fá einhverja vísbendingu um það hversu lengi þessum fundi skuli fram haldið. Nefndarfundir byrja klukkan 8.30 í fyrramálið og það væri gott að geta skipulagt daginn og ekki vill maður mæta óundirbúinn á nefndarfund.

Þá beindi ég þeirri fyrirspurn til hæstv. forseta hér áðan hvort búið væri að tímasetja fund í forsætisnefnd. Það kom fram í máli forseta fyrr í kvöld eða nótt, ég man þetta nú ekki alveg, að fyrirhugað væri að halda fund í nefndinni á morgun. Það kom jafnframt fram í máli hæstv. forseta að til stæði að boða fund með þingflokksformönnum á morgun. Það væri mjög gott, herra forseti, ef hægt væri að upplýsa hvaða tíma dagsins þetta yrði á morgun þannig að þingmenn gætu verið vel undirbúnir og ekki búnir að ráðstafa þeim tíma í (Forseti hringir.) önnur störf á vegum þingsins.