138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

aukning aflaheimilda.

[11:03]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Já, það er alveg hárrétt að það frumvarp sem liggur fyrir Alþingi núna, um breytingar á stjórn fiskveiða, felur einmitt í sér að tryggja enn betur að þær veiðiheimildir sem veittar eru innan fiskveiðiársins verði veiddar á árinu. Dregið er úr heimild til að flytja heimildir milli ára og þannig erum við að færa inn á þetta ár auknar veiðiheimildir upp á nokkur þúsund tonn miðað við fyrra ár ef þessum reglum hefði þá verið beitt.

Varðandi skötuselinn þá er það ekki svo að búið sé að heimila þessa aukningu en það er sagt: allt að þessi aukning, og það verður í sjálfu sér metið í ljósi rannsókna og ráðgjafar í þeim efnum en þessi heimild er inni.

Hvað varðar makrílinn þá hef ég gefið út bráðabirgðayfirlýsingu eða yfirlýsingu um kvóta upp á 130 þús. tonn á næsta ári sem upphafskvóta (Forseti hringir.) og okkur hefur nú verið boðið formlega að samningaborði annarra strandríkja um makrílinn. Það er stórt skref, frú forseti, og ber að fagna því alveg sérstaklega þó svo að eftir eigi að semja en við höfum fengið þá góðu og sterku stöðu, frú forseti.