138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég legg þann skilning í þessa lagagrein í viðauka samningsins að þar sé átt við einhverjar kröfur sem séu fullnustuhæfar. Krafa verður ekki fullnustuhæf nema að baki liggi veð eða eitthvað sem kemur til fullnustu ef ekki er innstæða fyrir kröfunni. Því vil ég spyrja þingmanninn: Telur hann að hér sé átt við einhvers konar ábendingarrétt? Því að í viðaukanum í grein 3.3 og 3.3.4 í hollenska samningnum — sambærilegt ákvæði er í breska samningnum — staðfesta samningsaðilar það að friðhelgisréttindunum sé ekki rutt í burtu og ekki náttúruauðlindunum heldur, en um viðaukann gilda bresk lög. Að mínu mati dugar ekki að samningsaðilar staðfesti að það sé sameiginlegur skilningur, því ef upp kemur ágreiningur, verður dæmt eftir breskum lögum og hjá breskum dómstólum. Ég minni á það að í (Forseti hringir.) Bretlandi eru í gildi lög frá 1978 (Forseti hringir.) sem taka á (Forseti hringir.) friðhelgisréttindum þjóða, hafi þær skrifað (Forseti hringir.) undir svo íþyngjandi samninga eins og Icesave-samningarnir eru.