138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í ræðum fyrr í dag og í nótt hef ég verið að velta fyrir mér stjórnarskrárhluta þessa máls. Ég þakka forseta rúman ræðutíma, forseti lætur mig bara vita þegar —

(Forseti (ÁÞS): Forseti vekur athygli á því að klukkan er ekki enn rétt, eins og þingmaðurinn sér. Hann sér hvaða tíma hann á eftir, við reynum að koma klukkunni í lag eins fljótt og unnt er.)

sjálfsagt, herra forseti, þú bara notar hljóðfærið.

Ég ætla áfram að ræða aðeins þennan stjórnarskrárþátt út frá þeim vangaveltum sem komið hafa upp. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á því að ég hef hér útskrift af ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar frá því í dag eða í morgun þegar ákveðið var að hafa þennan fund í lengra lagi. Ég held, herra forseti, að ekki væri úr vegi að hv. þingmaður, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, væri hér í salnum undir þessari umræðu því að svo sannarlega er ástæða fyrir þingmenn að eiga orðastað við hv. þingmann og fyrrverandi viðskiptaráðherra um þetta Icesave-mál sem varð að mínu viti að stórum hluta til á hans vakt eins og sagt er. Fyrst þingmaðurinn var svona ákafur í að hafa kvöldfund um mál sem tengist ráðherratíð hans svo sterkum böndum tel ég fulla ástæðu til þess að hann sitji hér og hlusti og taki þátt í umræðunum. (Gripið fram í: Hvar er formaður Framsóknarflokksins?)

Góð ábending, hv. þingmaður, hann er á fundi frammi í matsal og mun, held ég, flytja góða ræðu hér á eftir til heiðurs hv. þingmanni.

En, herra forseti, ég var að velta fyrir mér stjórnarskrárhluta málsins og var búinn að fara yfir u.þ.b. 2/3 af grein þeirra Lárusar Blöndals, Sigurðar Líndals og Stefáns Más Stefánssonar. Ég var og er enn að velta upp þeim efasemdum sem þar koma fram um stjórnarskrána og mælist til þess að frá því verði gengið vel í fjárlaganefnd að þetta verði skoðað vandlega og formleg álit fengin á þessum þætti, því það má ekki ríkja um þetta vafi á nokkurn hátt.

Í grein þeirra er millifyrirsögn sem heitir „Óviss skuldbinding“ og langar mig að lesa aðeins upp úr þeim hluta greinarinnar. Hér segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt því sem rakið er hér að framan er með lagafrumvarpi því sem breyta á lögum nr. 96/2009 gert ráð fyrir að ábyrgðarskuldbinding ríkisins sé ótímabundin og önnur ákvæði þannig úr garði gerð að í raun virðist enginn vita með vissu hvaða skuldbindingar sé verið að gangast undir ef frumvarpið verður samþykkt.“

Það er lykilþáttur í allri þessari umræðu, herra forseti, að því er ekki svarað hversu lengi og hversu há og mikil sú ábyrgð sem Alþingi fjallar um er — og mun hugsanlega veita, það veit í rauninni enginn enn — og hversu lengi hún mun gilda. Svo segir, með leyfi forseta:

„Draga verður í efa að lög af þessu tagi fáist staðist kröfur 40. gr. stjórnarskrárinnar um skýra og afdráttarlausa lagaheimild. Svipað á við um fjárveitingavaldið, skv. 41. gr. stjórnarskrárinnar má ekkert gjald reiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Hér er sem sé verið að draga í efa að það frumvarp sem liggur frammi standist 40. gr. stjórnarskrárinnar um skýra og afdráttarlausa lagaheimild, þ.e. að það sé klárt og kvitt um hvað þau lög gilda sem setja á og um hvað ábyrgðin snýst, hversu víðtæk hún er og hvenær hún tekur enda.

Hér er önnur millifyrirsögn, herra forseti, sem heitir „Réttur framtíðarinnar“. Þar segir, með leyfi forseta:

„Einnig má halda því fram að verið sé að ganga á lýðræðislegan rétt kjósenda með því að binda hendur Alþingis gagnvart erlendum ríkjum til ófyrirsjáanlegrar framtíðar við skuldbindingar sem geta reynst þjóðarbúinu ofviða og eru þar að auki líklega umfram lagaskyldu. Slíkt fær varla staðist 1. gr. stjórnarskrárinnar um löggjafarvald Alþingis.“

Enn á ný eru færð rök fyrir því að um þetta leiki vafi og tekið dýpra í árinni en svo að um það ríki vafi, í raun og veru er verið að segja að þetta stangist á við stjórnarskrána. Það er mjög alvarlegt, herra forseti, og mikilvægt að fjárlaganefnd og þingið láti skoða það til hlítar, m.a. með því að kalla eftir formlegum álitum varðandi þetta efni. Það er ótækt að Alþingi og þingmenn, sem skrifað hafa undir eið við stjórnarskrána, gangi á svig við hana.

Í niðurlagi greinarinnar segir, með leyfi forseta:

„Í stuttu máli má halda því fram með fullum rökum að verið sé að skerða fullveldi ríkisins umfram það sem stjórnarskrá heimilar.“

Er það þannig, herra forseti, að við getum tekið þá áhættu sem felst í þessum orðum að mögulega séum við að skerða fullveldi ríkisins? Ég fæ ekki með nokkru móti séð að nokkur þingmaður geti samþykkt slíkt án þess að það sé fullkannað, ekki síst vegna þess eiðs sem þingmenn undirrituðu eins og þeim ber að gera.

Hægt er að velta þessu máli fram og til baka, hvort fleiri þættir séu í frumvarpinu sem þetta getur átt við. En þarna hafa þessir ágætu lagasérfræðingar eða lögfróðir menn ritað þessa grein og velt þessu upp og okkur ber að taka þetta alvarlega, skoða þetta með formlegum og efnislegum hætti. Hér hefur verið farið yfir málið munnlega í ræðum en það er einfaldlega ekki nóg, þetta þarf að liggja fyrir og það þarf að fara í það efnislega. Þetta er eitt atriði af nokkrum er varða þetta frumvarp sem er mikilvægt að skoða.

Síðan má velta því upp, herra forseti, hvort ekki sé eðlilegt að þjóðin fái að segja skoðun sína á skuldbindingu þeirri sem í þessu felst, skuldbindingu sem ekki sér fyrir endann á, skuldbindingu sem börn okkar munu þurfa að standa skil á. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki samvisku í mér eins og málið er í dag að samþykkja það eins og það lítur út, ekki síst vegna þess að ég horfi til barna minna með það í huga að leggja þetta á þau.

Það má líka velta því fyrir sér hvers vegna við erum að ganga þennan veg núna. Það er alveg ljóst að fyrir rúmu ári, þegar hið svokallaða hrun varð, voru hér mjög viðsjárverðir tímar. Stjórnvöld hafa örugglega á þeim tíma eins og nú tekið rangar ákvarðanir á einhverjum tímapunkti. En við getum ekki horft fram hjá því að aðstæður í dag eru töluvert aðrar en þær voru fyrir rúmu ári. Það hefur margt gerst, margt breyst, málið þróast, margt komið upp á yfirborðið. Ég vil fullyrða það, herra forseti, að það mál, það Icesave-mál ef þannig má orða það, sem Alþingi fjallaði um og kom fram fyrir rúmu ári er ekki sama eðlis og með sömu formerkjum og það mál sem við erum með í dag.

Það er alveg ljóst í mínum huga að ríkisstjórnir Evrópusambandsríkja, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, hafa beitt íslenska þjóð harðræði í þessu máli. Þar stangast reyndar á fullyrðingar stjórnmálamanna hér og framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ýmissa annarra um hvað telst satt og rétt í því stóra máli. Það kemur vonandi í ljós og það þarf að koma í ljós því að við getum ekki horft fram hjá því að þarna er mismunandi sýn uppi. Hitt er hins vegar ljóst, herra forseti, að það á ekki við lengur að við fáum ekki lánin sem eru forsenda þess að við getum haldið áfram við endurreisn landsins.