138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:02]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta sem skiptir máli í stöðunni. Af hverju hafa Hollendingar og Bretar ekki fært rök fyrir því að við eigum að greiða það sem þeir vilja að við greiðum þeim? Vegna þess að þeir hafa vondan málstað að verja og vita að þeir mundu tapa málinu ef það færi fyrir dómstóla. Þess vegna hefur Evrópusambandið beitt okkur valdi og hamlað að þessi mál geti farið dómstólaleiðina.

Það er nú þannig að við ættum að geta varið og sótt okkar stöðu fyrir dómstólum. Það er og ætti að vera eðlileg leið í samskiptum ríkja. En þeir afgreiða okkur, þessir háu herrar í Evrópu, eins og druslur. Við sem erum baráttumenn Íslands, munum aldrei láta deigan síga, aldrei, því það er hlutskipti okkar að verja land og þjóð fram í rauðan dauðann, virðulegi forseti. (Forseti hringir.)