138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:09]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo ég haldi áfram því sem ég minntist á í fyrra andsvari mínu, þá veit ég að Norðurlöndin höfðu miklar áhyggjur af því að við mundum hugsanlega nota lánin frá þeim til að borga Icesave og það var eitt af því sem þau nefndu að ætti alls ekki að koma til greina, en ég hef ekki heyrt frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ekki komi til greina að lánin frá honum séu notuð til þess að borga Icesave. Nú var talað um það að núvirði þessarar skuldbindingar þegar búið væri að draga frá eignirnar í þrotabúinu ætti að vera einhvers staðar í kringum 240 milljarðar og þá gerðu menn ráð fyrir 75% heimtum, en nú tala menn um allt að 90% heimtur þannig að núvirði skuldbindinganna ætti þá að vera töluvert lægra. Ef komið gæti til greina að nota lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í staðinn fyrir að taka þetta lán frá Bretum og Hollendingum til þess að borga, með fyrirvara um það að við mundum sækja rétt okkar fyrir dómstólum og fá það á hreint hvort við ættum að standa skil á þessu eða ekki, þá eru vaxtakjörin á lánunum frá AGS töluvert hagstæðari en á þessum lánum. Og miðað við það sem ég hef heyrt frá fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, (Forseti hringir.) get ég ekki séð að þeir geri ráð fyrir því að við munum nokkurn tímann borga höfuðstólinn af því láni til baka.