138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs í tilefni af þeirri sorglegu atburðarás sem við höfum orðið vitni að síðustu daga sem er málþófið í þinginu um Icesave-málið. Hér hafa menn fundið gloppur í þingskapalögum sem gerir þeim vissulega kleift að halda þessum skrípaleik áfram en ég lít svo á að hér sé verið að hindra Alþingi í störfum sínum. Það er ábyrgðarhluti, mér finnst það alvarlegt mál. Það er í raun og veru verið að hindra Alþingi í því að sinna stjórnarskrárbundnu hlutverki sínu (Gripið fram í.) sem löggjafi. (Gripið fram í.) Hér er mikið í húfi (Gripið fram í.) fyrir íslenska þjóð að málið fái framgang, atvinnulífið bíður, fjármálakerfið bíður eftir fjárstreymi, eftir lánsmatshæfi, hv. þm. Höskuldur Þórhallsson, sem hrópar fram í. (Gripið fram í.) En málinu er haldið í gíslingu, (Gripið fram í.) meiri hluta þingsins er haldið í herkví. Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur höfðað til ábyrgðar þingmanna, höfðað til samvisku þeirra og beinlínis beðið þá um að taka betri aðferðafræði við afgreiðslu þessa máls og það virðist enn vera eins og vatn hrjóti af gæs. Mér finnst þetta alvarlegt umhugsunarefni og ég velti því fyrir mér, frú forseti, (Gripið fram í.) hvort ekki sé tilefni til að breyta hreinlega þingsköpum í ljósi þessarar atburðarásar. (Gripið fram í.) Í það minnsta (Gripið fram í.) finnst mér tilefni til þess að þingflokkarnir setjist nú niður og reyni að komast að friðsamlegu samkomulagi um lyktir þessa máls þannig að það komist alla vega til þingnefndar og fái sína efnislegu umfjöllun þar eftir 2. umr. (Gripið fram í.)