138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ályktun Samfylkingarinnar í Garðabæ -- fjárlagagerð -- skattamál o.fl.

[11:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Já, hún er gamansöm í morgunsárið hv. varaformaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur fundið sér sérstakt gleðiefni í lítilli frétt í málgagninu um fund hins geysiöfluga Samfylkingarfélags í Garðabæ þar sem ályktað var um ýmis efni, m.a. var hvatt til þess að menn gengju í takt. (Gripið fram í.) Það verður að segjast eins og er (Gripið fram í.) að það skiptir öllu máli í þessu efni, virðulegur þingmaður, að það sé gengið vel og örugglega áfram, og það er engan bilbug að finna á stjórnarflokkunum í þessu efni. Það eru vel rekin trippin á þeim bæ. (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu þekkjum við að göngulagið getur verið með ýmsum hætti, tölt, brokk, skeið o.s.frv. Aðalatriðið er að menn komist vel áfram og séu á réttri leið og það eru stjórnarflokkarnir svo sannarlega. (Gripið fram í.)

Hitt vakti athygli mína að í sömu frétt var sjónum beint að stjórnarandstöðunni, Sjálfstæðisflokknum. En hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir vék í gamansemi sinni ekkert sérstaklega að því að hið öfluga Samfylkingarfélag í Garðabæ hefði áhyggjur af því hvernig Sjálfstæðisflokkurinn og stjórnarandstaðan höguðu sínum málflutningi á aðventunni á Alþingi. (Gripið fram í.)