138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:33]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ætlaði einmitt að koma hér undir liðnum fundarstjórn forseta að ræða um fundarstjórn forseta. Í tilefni af orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar, sem vitnaði í gögn eða öllu heldur skort á þeim, vildi ég spyrja frú forseta að því — ég á nokkrar fyrirspurnir inniliggjandi til hæstv. ráðherra sem varða þetta mál beint og ég er að biðja um gögn sem gætu upplýst okkur um ýmis atriði er varða það mál sem við ræðum nú — hvort eitthvað lægi fyrir hvenær næsti fyrirspurnatími með ráðherrum er hér á dagskrá til þess að við getum glöggvað okkur á því hvenær svörin við þessum fyrirspurnum liggja fyrir. Ég hef líka verið með skriflegar fyrirspurnir til ráðherra. Ég man ekki alveg í svipinn hversu marga daga þeir hafa til að svara því en ég spyr hvort frú forseti gæti beitt sér fyrir því að inna hæstv. ráðherra eftir svörum við þessu. (Forseti hringir.) Eins og við vitum þolir þetta ekki bið ef þetta á að komast inn í umræðuna.