138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:49]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni í nótt fór ég nokkrum orðum um þá undarlegu stöðu sem uppi er í þessu máli, að eftir því sem því hefur undið fram, þeim mun óskiljanlegra hefur það orðið satt að segja. Við vitum núna að við ræðum þessi mál í skugga mikilla hótana sem hafa komið frá ríkisstjórninni, hótana í þá veru að ef þessi mál verði ekki kláruð á allra næstu dögum geti eitthvað voðalegt komið fyrir þjóðina.

Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrir fáeinum dögum að hún ætlaði að ef þessi mál fengju ekki viðhlítandi niðurstöðu hér í þinginu, þ.e. ef Alþingi mundi ekki samþykkja frumvarp hæstv. ríkisstjórnar óbreytt, skylli á frostavetur (REÁ: Ísöld.) sem mundi hafa þær afleiðingar í för með sér að Íslandi yrðu eiginlega allar bjargir bannaðar og við hefðum enga möguleika til þess að útvega lánsfé eða með neinum hætti fá aðgang að þeim nauðsynlegu samskiptum sem við þurfum að hafa við aðrar þjóðir. Mörgum hnykkti auðvitað við þegar hæstv. forsætisráðherra talaði um að heill frostavetur, fimbulvetur, væri að skella yfir okkur nema aðeins að við samþykktum möglunarlítið frumvarp það sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram og við höfum rætt fáeina síðustu daga.

Síðan gerist það til viðbótar að flokkur hæstv. forsætisráðherra, Samfylkingin, sendir frá sér fréttabréf til trúnaðarmanna sinna og þar er ekki klipið utan af þessum hlutum eða skorið við nögl í orðavali. Það er ekki látið duga að tala um frostavetur og fimbulkulda heldur hreinlega ísöld, þ.e. að fram undan sé ekki bara einn kaldur, dimmur vetur heldur langur tími, heil öld, hundrað ár hið minnsta, þar sem við búum við þau skilyrði að jafna mætti við ísöld í efnahagslegum skilningi.

Það er ekki hægt að segja að talsmenn þessa máls séu á hinum hógværari nótum eða að þeir gefi okkur til kynna að litlir hlutir séu hér í húfi. Við vitum auðvitað að það eru miklir hlutir í húfi. Þessar skuldbindingar sem ríkisstjórnin vill að íslenskur almenningur taki á sig hlaupa á mörg hundruð milljónum króna og guð einn veit í raun og veru hver sú upphæð verður sem lendir á endanum á herðum íslenskra skattborgara, almennings og fyrirtækjanna í landinu. Því má kannski segja sem svo að það sé óhætt að hafa uppi hin stærstu orð. Er samt ekki svolítið sérkennilegt að á sama tíma og hæstv. forsætisráðherra og flokkur hennar keppast við að hafa þessi stóru orð um afleiðingar þess ef ekki verður brugðist við og þetta frumvarp samþykkt möglunarlaust skuli aðrir ráðherrar hneykslast mjög yfir því að höfð séu uppi varnaðarorð um afleiðingarnar fyrir efnahagslífið og almenning í landinu ef við þurfum að taka á okkur, án þess að fyrir liggi að við höfum til þess lagalega skuldbindingu, skuldbindingar upp á mörg hundruð milljarða króna? Hæstv. fjármálaráðherra hefur verið óþreytandi í ræðustólnum í dag og undanfarna daga við að segja okkur að menn megi ekki tala kjarkinn úr þjóðinni, menn megi ekki tala eins og allt sé að fara á hinn versta veg. Það séu víst tækifæri og skuldabyrðin sem við berum sé ekkert svo alvarleg. Á sama tíma kemur hans nánasti samverkamaður í ríkisstjórninni, hæstv. forsætisráðherra, og hefur uppi þessi stóru orð um þær hættur sem blasi við nema við göngumst undir þetta jarðarmen sem verið er að kynna okkur með þessu frumvarpi.

Ég hef líka á undanförnum dögum reynt af fremsta megni að varpa ljósi á og reyna að fá svör við í hverju þessi mikla hætta sé fólgin, hverjir það séu sem reyni að hóta okkur og vilji nánast loka landið af í efnahagslegum skilningi. Þegar menn tala um frostavetur og ísöld í tengslum við afleiðingar þess að þetta frumvarp verði ekki samþykkt hljóta menn að vera að tala um gríðarlega hagsmuni og mjög alvarlega hluti, alvarlegar þvinganir sem hæstv. ríkisstjórn þykist hafa þá upplýsingar um að verði ef þessi mál verði ekki leidd til lykta með þeim hætti sem hæstv. ríkisstjórn vill. Hæstv. ríkisstjórn hlýtur að hafa upplýsingar sem öðrum eru ekki ljósar um hverjar afleiðingarnar verði. Að vísu er okkur sagt að matsfyrirtæki úti í heimi muni bregðast ókvæða við. Matsfyrirtæki sem t.d. um mitt síðasta ár töluðu fremur jákvætt um okkar efnahagslíf, töluðu um styrkleikana sem við hefðum, ógnin væri að sönnu til staðar en í meginatriðum væri hagkerfi okkar býsna sterkt og vel til þess fallið að takast á við vandamál sem á okkur kynnu að dynja. (PHB: Öfundsverðar.) Öfundsverðar langtímahorfur, sagði raunar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í júlímánuði á sl. ári og það eru fleyg orð sem ástæða er til að halda til haga.

Þá var vísað til þess að það væri Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem væri að bregða fyrir okkur fæti og vildi ekki borga okkur út lánin. Nú liggur fyrir frá forstjóra stofnunarinnar að þetta er rangt og stofnunin mun greiða út lán eins og um var samið, að vísu miklu síðar vegna þess að það var sleifarlag af hálfu hæstv. ríkisstjórnar varðandi framkvæmd efnahagsmála. Það liggur líka fyrir að gagnstætt því sem haldið var fram eru Norðurlöndin núna reiðubúin að greiða okkur út sín lán. Því var haldið fram að Evrópusambandið reyndi að gera okkur erfitt fyrir. Því hafnaði hæstv. forsætisráðherra og þannig mætti áfram telja.

Í dag höfum við mátt fylgjast með í fjölmiðlum ótrúlegum skoðanaskiptum milli sendiherra Svíþjóðar og fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þar sem hvor um sig ber af sér að nokkurn tíma hafi staðið til að bregða fæti fyrir fjárhagslega fyrirgreiðslu til Íslands. Aðalfulltrúi sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er mjög stórorður og afdráttarlaus og vísar til þess að Norðmenn fari ekki fyrir Norðurlöndunum heldur Svíar og það séu Svíar sem hafi haft þá afstöðu að ekki ætti að greiða út norrænu lánin til okkar nema við gengjum frá Icesave-málinu. Nú er Icesave-málið óklárað eins og menn vita en engu að síður er lánafyrirgreiðslan frá Norðurlöndunum í höfn. Seðlabankastjóri hefur greint frá því að þessir peningar verði væntanlega í húsi núna fyrir áramótin án þess að frá samningum út af Icesave hafi verið gengið.

Það sem vekur hins vegar miklar spurningar er að nú var þetta frumvarp sem við ræðum hér lagt fram fyrir allnokkrum vikum síðan. Það hefur væntanlega verið lagt fram í trausti þess að ríkisstjórnin hefði fullt vald á því. Því verður ekki trúað að óreyndu að ríkisstjórnin komi í tvígang fram með mál af þessari stærðargráðu sem lýtur að samningum við aðrar þjóðir án þess að hafa gengið úr skugga um að hún hafi vald á að ljúka því hér á Alþingi. Svo er þó að skilja á talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, að svo mikil vantrú sé ríkjandi af hálfu þeirra sem við eigum við að semja og við eigum hagsmuni undir að hæstv. ríkisstjórn sé ekki treystandi til þess að ljúka þessu máli.

Ef þetta stendur allt og fellur með því að hægt verði að afgreiða þetta Icesave-mál frá Alþingi — ég vona svo sannarlega að það takist ekki en ef hæstv. ríkisstjórn hefur á réttu að standa um að miklir hagsmunir séu undir í því að þetta mál sé í höfn skyldi maður ætla að ríkisstjórn fullvalda ríkis nyti þess trausts hjá þeim aðilum sem um eiga að véla að þeir tryðu því og treystu að ríkisstjórnin sæi til þess að málið væri afgreitt. Býr eitthvað hér undir? Er einhver efi í hugum þeirra sem eiga við okkur viðskipti um að hægt sé að treysta ríkisstjórninni varðandi framgang þessa máls? Hefur ríkisstjórnin svona lítið traust á stuðningi við þetta mál úr sínum eigin herbúðum að hún treysti sér ekki til að lýsa því yfir afdráttarlaust að þessu máli verði lokið með tilstyrk ríkisstjórnarmeirihlutans? 34 þingmenn hafa lýst því yfir að þeir ætli að styðja þessa ríkisstjórn. Hefur þeim kannski fækkað? Vitum við ekki um að einhverjir þingmenn séu mögulega að ganga úr skaftinu? Ríkisstjórnin er með þessum orðum (Forseti hringir.) fyrst og fremst að grafa undan eigin trúverðugleika jafnframt því að hafa uppi ósæmilegar hótanir í garð Alþingis og almennings í landinu.